„Umbjóðanda mínum er mjög létt“

Vilhjálmur H. Vilhjálmsson lögmaður.
Vilhjálmur H. Vilhjálmsson lögmaður. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Vilhjálmur H. Vilhjálmsson, lögmaður Steinþórs Einarssonar, sem í gær var sýknaður í Landsrétti af manndrápi í Ólafsfirði í október 2022, segir að umbjóðandi sinn fagni niðurstöðunni. Til skoðunar sé hvort farið verði í skaðabótamál gagnvart ríkinu vegna málsins, en það bíði þó ákvörðunar ríkissaksóknara um hvort sótt verði um áfrýjunarleyfi til Hæstaréttar.

Áður hafði Steinþór verið dæmdur í átta ára fangelsi en dómurinn var kveðinn upp í Héraðsdómi Norðurlands eystra í janúar. Ákæruvaldið krafðist þess að átta ára fangelsisdómur í málinu yrði þyngdur, en í dómi héraðsdóms var Steinþór fundinn sekur um að hafa orðið Tómasi Waagfjörð að bana fyrir tveimur árum með því að stinga hann tvisvar sinnum í vinstri síðu með hnífi.

Landsréttur mat það svo að Steinþór hefði orðið fyrir ólögmætri árás sem honum hefði verið rétt að verjast eða afstýra. 

Rangur dómur varðandi sakfellingu og lengd refsingar

„Það lá fyrir frá fyrstu stundu að mínu mati að þessi héraðsdómur var rangur. Hann var bæði rangur varðandi sakfellinguna og ekki síður lengd refsingar,“ segir Vilhjálmur við mbl.is, en hann flutti málið fyrir Landsrétti.

Hann segir að það hafi verið farið langt fram úr refsitillögu ákæruvaldsins í héraði en þar hafi ákæruvaldið lagt til að það yrði farið niður úr fimm ára refsilágmarkinu.

„Það voru ekki gerðar athugasemdir við það að hálfu ákæruvaldsins ef dómurinn myndi ekki gera ákærða refsingu. Síðan var málinu áfrýjað og þá skýtur það skökku við að ákæruvaldið gerir kröfu um refsiþyngingu í Landsrétti sem er alveg með ólíkindum. En sem betur fer er niðurstaðan þessi,“ segir Vilhjálmur.

Hann segir dóm Landsréttar lögfræðilega vera hárrétta niðurstöðu og að dómurinn sé vel rökstuddur.

„Sakfelldur fyrir það eitt að verja hendur sínar

„Umbjóðanda mínum er mjög létt með þessa niðurstöðu,“ segir Vilhjálmur en Steinþór sat í gæsluvarðhaldi í nokkrar vikur eftir að dómur féll í héraði.

Hann segir að sakfellingin og umfjöllun fjölmiðla um hana hafi haft gríðarleg áhrif á umbjóðanda sinn.

„Hann var sakfelldur fyrir það eitt að verja hendur sínar þegar að honum var ráðist með ofsafengnum hætti. Hann átti bara eina leið til að forða því að verða sviptur lífi sem var að grípa til varna,“ segir Vilhjálmur.

Spurður hvort komi til greina að fara í skaðamótamál segir hann:

„Nú er staðan sú að ákæruvaldið hefur fjórar vikur til þess að sækja um áfrýjunarleyfi til Hæstaréttar. Það er fátítt að áfrýjunarleyfi sé veitt í sakamálum og það á enn frekar við í máli eins og þessu þar sem niðurstaðan veltur meðal annars á mati á munnlegum framburðum sem færðir voru fram í Landsrétti,“ segir hann.

Vilhjálmur segir að Hæstiréttur endurskoði ekki mat Landréttar á munnlegum framburðum fyrir dómi og í ljósi þess hversu dómurinn sé afdráttarlaus og vel rökstuddur þá vonist hann til þess að málinu sé lokið og að áfrýjunarleyfið verði ekki veitt.

Skaðabótamál til skoðunar

„Hvað varðar hugsanlegt skaðabótamál þá er það til skoðunar en við munum að sjálfsögðu bíða með slíkar vangaveltur þangað til að það liggur fyrir að dómur Landsréttar er orðinn endanlegur sem er eftir fjórar vikur,“ segir hann.

Sigríður J. Friðjónsdóttir ríkissaksóknari segir í skriflegu svari til mbl.is að málið sé til skoðunar með tilliti til þess hvort óskað verði eftir áfrýjunarleyfi til Hæstaréttar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert