Jákvæður tónn var í Willum Þór Þórssyni heilbrigðisráðherra þegar hann var spurður út í verkfall sem læknar hafa samþykkt. Vonast hann til þess að deiluaðilar nái saman áður en til verkfalls kemur.
„Þó að læknar sín á milli kjósi um það að geta beitt verkfallsvopni, þá þýðir það ekki að við náum ekki að semja. Báðir aðilar hafa lagt mikið af mörkum, bæði við það að reikna forsendur beinna kjara, bættan aðbúnað og bætt vinnuskipulag. Það er mjög tímafrekt en ég tel allar forsendur til að ná saman og ég trúi því enn þá að það muni gerast,“ segir Willum eftir ríkisstjórnarfund starfsstjórnar í morgun.
Hann segir að vinna að vinnuskipulagi lækna hafi þegar verið unnin frá því skammtímasamningar voru undirritaðir. Vonast hann til þess að það muni auka líkur á því að menn muni ná saman.
„Ég veit að það er góður gangur í viðræðunum og það eru forsendur til að semja. Ég trúi því enn þá að það muni semjast,“ segir Willum.
Þannig að það verður þá vonandi áður en verkfall hefst?
„Já, ég vil ekki sjá það,“ segir Willum.
Læknar fóru síðast í verkfall árið 2015.
Nú er þetta í annað skiptið á tiltölulega stuttum tíma sem læknar velja að beita verkfallsvopninu. Er það áhyggjuefni hve auðvelt virðist vera að grípa til þess?
„Nei, mér finnst ekki óeðlilegt að starfsstéttir ákveði það innan síns hóps að komi til þess að þær geti beitt því. Það er eðlilegt á skipulögðum vinnumarkaði, en það þýðir ekki að menn leggi sig ekki fram um að semja,“ segir Willum.