Hópur íslenskra og nepalskra fjallgöngukvenna gekk upp á Lobuche (6119 m) tind í Himalajafjöllum. Hópurinn náði upp á tind Lobuche East kl. 7 í gærmorgun.
Í hópnum eru Íslendingarnir Lukka Pálsdóttir og Soffía S. Sigurgeirsdóttir.
Fjallagarparnir ganga til að vekja athygli á stöðu kvenna í Nepal og í fjallgöngugeiranum. Leiðangurinn stendur til 5. nóv. og hefur fengið heitið: Climb for Change: Empowering Nepalese and Sherpa Women.
Ásamt þeim eru fjallgöngukonurnar Pasang Lhamu Sherpa Akita, Purnima Shrestha, Pasang Doma Sherpa, og Jangmu Sherpa með í för. Þar sem leiðangurinn er alfarið kvenkyns eru burðarkonur en ekki burðarmenn með í för.
Fjallgönguna tileinka þær öllum stelpum og konum sem vilja láta drauma sína rætast og safna áheitum fyrir stúlkur í fjallasamfélaginu í Nepal sem vilja starfa sem fjallgönguleiðsögukonur.
Ein helsta leið kvenna til að öðlast fjárhagslegt sjálfstæði er að taka þátt í ferðaþjónustu í kringum háfjallamennsku. Hingað til hefur hann verið heimur karla lokaður konum en nú eru fyrstu konurnar af Sherpa-ætt að komast inn í greinina og ryðja brautina fyrir aðrar konur.
„Staða kvenna í Nepal er bágborin, réttindi og tækifæri til að öðlast menntun og sjálfstæði eru lítil. Mansal er gríðarlega mikið vandamál í Nepal en mörg þúsund kvenna eru árlega gefnar eða seldar í mansal og kynlífsþrælkun.
Meginástæðan er fátækt og lægri félagsstaða kvenna og takmörkuð atvinnutækifæri. Jafnrétti er ekki einungis réttlætismál heldur efnahagsleg nauðsyn fyrir konur og þeirra sjálfstæði,“ segir í tilkynningu um leiðangurinn.
Íslenska útivistarmerkið 66°Norður styður leiðangurinn. Hægt er að styrkja söfnunina hér og fylgjast með leiðangrinum á Instagram og Facebook.