Mikil áhætta fylgir sáttmálanum

Svana Helen Björnsdóttir og Magnús Örn Guðmundsson.
Svana Helen Björnsdóttir og Magnús Örn Guðmundsson. Samsett mynd

Ekkert samráð var haft við kjörna fulltrúa um framkvæmdir, forgangsröðun eða upplýsingar um uppfærðar fjárhæðir í samgöngusáttmálanum fyrr en á kynningu sem haldin var degi áður en ritað var undir uppfærslu hans í ágúst á þessu ári. Var þá búið að gera meiriháttar breytingar og gildistími sáttmálans framlengdur til ársins 2040.

Fjárhagsáætlun, sem nam upphaflega 120 milljörðum þegar sáttmálinn var undirritaður 2019, hljóðar nú upp á 311 milljarða króna. Þá hefur framkvæmdum einstakra verkefna verið hliðrað til og kostnaður við rekstur almenningssamgangna fer úr 10 milljörðum í rúmlega 17 milljarða á ári.

Þetta kemur fram í bókun tveggja fulltrúa Sjálfstæðisflokks, Magnúsar Arnar Guðmundssonar formanns bæjarráðs og Svönu Helenar Björnsdóttur, á fundi bæjarráðs Seltjarnarness sem haldinn var á mánudag.

„Það er í besta falli óþægilegt að vera sett í slíka stöðu og fá þá skýringu að um sé að ræða trúnaðarmál og kjörnum fulltrúum sé vart treystandi til að fara með slík trúnaðargögn fyrir undirritun. Með þessu var okkur ekki gefinn kostur á að benda á þá gríðarlegu áhættu sem fylgir markmiðum og verkefnum samgöngusáttmálans. Þetta verklag teljum við verulega ófaglegt auk þess sem það skapar óeðlilegan þrýsting á kjörna fulltrúa,“ segir í bókuninni.

Bæjarfulltrúarnir segja að ekki hafi verið unnið að „raunverulegum samgöngubótum“ á höfuðborgarsvæðinu svo árum skiptir. Í þokkabót hafi samgöngur þar orðið sífellt torveldari, til dæmis til og frá Seltjarnarnesi, og ástandið versni stöðugt.

Nánari umfjöllun er að finna í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert