Nýr hópur að meiðast í umferðinni

Fjölgun slysa á reiðhjólum og rafmagnsfarartækjum má næstum að öllu …
Fjölgun slysa á reiðhjólum og rafmagnsfarartækjum má næstum að öllu leyti rekja til rafmagnshlaupahjóla. AFP

Slysum í tengslum við reiðhjól, rafhjól og rafhlaupahjól hefur fjölgað til muna á síðustu árum og þá nær einungis sökum rafhlaupahjóla. Rannsóknir og rýni benda til þess að nýr hópur sé að meiðast í umferðinni og prófessor við Háskóla Íslands telur að ekki sé hægt að segja rafhlaupahjól umhverfisvænan samgöngumáta.

Guðmundur Freyr Úlfarsson, prófessor við umhverfis- og byggingarverkfræðideild Háskóla Íslands, hélt erindi undir yfirskriftinni Áhrif aksturs rafhlaupahjóla á umferðaröryggi á rannsóknaráðstefnu Vegagerðarinnar fyrir árið 2024.

130 slasaðir árið 2023

Þannig voru alvarleg slys eða dauðsföll sem rakin voru til reiðhjóla og rafhjóla um tuttugu árið 2018. Árið 2019 voru slys sökum rafhlaupahjóla tekin með í reikninginn og voru 50 árið 2019 og 80 2022.

Séu rafhlaupahjól aðskilin reiðhjólum og rafhjólum og litið til slysa í heildina þá slösuðust um 90 manns á síðarnefndu farartækjunum samanborið við um 130 á rafhlaupahjólum árið 2023.

Guðmundur segir rafhlaupahjól gefa notendum sýndarstöðugleika, að stýri hjólsins og …
Guðmundur segir rafhlaupahjól gefa notendum sýndarstöðugleika, að stýri hjólsins og hraði mótorsins veiti notendum aukið jafnvægi sem blekkir. mbl.is/Geir

Ekki umhverfisvænn ferðamáti

Guðmundur vísaði til samgöngukönnunar Gallup frá 2022 en í henni sögðu 51% svarenda að rafhlaupahjól kæmi í staðinn fyrir gönguferð.

Að mati Guðmundar sýnir það fram á að ekki sé hægt að tala um rafhlaupahjól sem umhverfisvænan samgöngumáta komi þau í staðinn fyrir umhverfisvænasta ferðamátann.

„Að breyta gönguferð í rafhlöðuknúna ferð er ekki gott fyrir umhverfið.“

Blekkjandi stöðugleiki

Hann sagði rafhlaupahjól gefa notendum sýndarstöðugleika, að stýri hjólsins og hraði mótorsins veiti notendum aukið jafnvægi sem blekkir.

Fyrir vikið telur notandi hlaupahjólsins stöðugleikann vera meiri en hann í raun er, enda þarf lítið að fara úrskeiðis til að missa alfarið stjórn á hjólinu.

Þannig bendir hann á að flestir notendur rafhlaupahjóla væru ólíklegir til að nota hjólabretti eða jafnvel hefðbundin hlaupahjól, en að sýndarstöðugleiki rafhlaupahjólsins telji óþjálfuðu fólki trú um að það geti ekið hjólinu bæði hratt og örugglega.

Guðmundur segir nýjan hóp meiðast í umferðinni sökum rafhlaupahjóla.
Guðmundur segir nýjan hóp meiðast í umferðinni sökum rafhlaupahjóla. mbl.is/Geir

Margir undir áhrifum 

Miðað við rannsóknir og rýni bendir allt til þess að alveg nýr hópur sé að meiðast í umferðinni. Hópur sem hefði annars notað annars konar samgöngumáta.

Guðmundur tekur þannig sem dæmi að í mörgum tilvikum sé fólk að nýta sér hjólin, í ölvunarástandi, til að komast heim eftir skemmtanir enda sögðust 40% fullorðinna hafa verið undir áhrifum í könnun Gallup frá 2022.

Hann tekur þennan hóp sem dæmi um nýjan hóp sem er að meiðast í umferðinni, hóp sem hefði annars gengið heim til sín eða tekið leigubíl.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert