„Október var kaldur á landinu öllu“

Esjan í byrjun október.
Esjan í byrjun október. mbl.is/Karítas

„Október var kaldur á landinu öllu,“ segir í yfirliti Veðurstofu Íslands um tíðarfar októbermánaðar þetta árið. 

Segir að kaldast hafi verið á norðurhluta landsins en hlýrra sunnanlands.

Þá segir að tíð var þó nokkuð hagstæð, það hafi verið óvenjulega hægviðrasamt og úrkoma var undir meðallagi víðast hvar.

Meðalhiti í Reykjavík var 3,3 stig og það 1,5 stigum undir meðallagi áranna 1991 til 2020, en 2,2 stigum undir meðallagi síðustu tíu ára.

Sá kaldasti síðan 1981

Á Akureyri var meðalhitinn 0,8 stig sem er 2,7 stigum undir meðallagi áranna 1991 til 2020, en 3,2 stigum undir meðallagi síðustu tíu ára.

Segir að októbermánuður hafi verið sá kaldasti á Akureyri síðan 1981.

Í Stykkishólmi var meðalhiti mánaðarins 2,7 stig og 4,1 stig á Höfn í Hornafirði.

Meðalhiti mánaðarins var hæstur í Surtsey, 5,8 stig, en lægstur var hann á Þverfjalli -3,9 stig. Í byggð var meðalhitinn lægstur í Svartárkoti -1,7 stig.

Hæsti hiti mánaðarins mældist 14,2 stig í Skaftafelli þann 18. Mest frost í mánuðinum mældist -19,1 stig í Möðrudal þann 13.

Átta alhvítir dagar á Akureyri

Úrkoma í Reykjavík mældist 72,4 mm sem er 90% af meðalúrkomu áranna 1991 til 2020. Þá var jörð alauð af snjó alla morgna í Reykjavík nema tvo daga þegar það var flekkótt. 

Á Akureyri mældist úrkoman 44,7 mm sem er 60% af meðalúrkomu áranna 1991 til 2020. Alhvítir dagar á Akureyri voru átta, sem er fimm fleiri en að meðaltali 1991 til 2020.

Í Stykkishólmi mældist úrkoman í október 78,4 mm og 140,0 mm á Höfn í Hornafirði.

Sólskinsstundir mánaðarins mældust 115,3 í Reykjavík, sem er 23,7 stundum yfir meðallagi áranna 1991 til 2020. Sólskinsstundafjöldinn raðast í 13. sæti á lista 112 ára.

Á Akureyri mældust sólskinsstundir októbermánaðar 56,6 sem er 8,7 stundum undir meðallagi.

Ekki eins kalt í tæp 30 ár

Þá segir að meðalhiti fyrstu tíu mánaða ársins var 5,0 stig í Reykjavík. Það er 0,8 stigum undir meðallagi áranna 1991 til 2020 og 1,0 stigi undir meðallagi undanfarins áratugar. Meðalhiti mánaðanna tíu raðast í 87. til 88. hlýjasta sæti á lista 154 ára í Reykjavík.

Á Akureyri mældist meðalhiti janúar til október 4,0 stig sem er 1,0 stigi undir meðallagi 1991 til 2020 og 1,4 stigum undir meðallagi síðustu tíu ára. Meðalhitinn á Akureyri raðast í 87. til 89. hlýjasta sæti á lista 144 ára.

Fyrstu tíu mánuðir ársins hafa ekki verið eins kaldir í tæp 30 ár, hvorki í Reykjavík (kaldara 1995) né á Akureyri (kaldara 1998).

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert