Adrenalínflóð yfir Arizona

„Stigið“ frá borði í 70 manna stökk sem er hreinlega …
„Stigið“ frá borði í 70 manna stökk sem er hreinlega dropi í hafið miðað við það sem Jón Ingi Þorvaldsson spreytir sig á yfir Arizona þegar þetta er ritað, heimsmet í mynsturstökki með tveimur mynstrum. Þátttakendur 154. Ljósmynd/Craig O'Brien

„Þetta hefur verið eitt af helstu markmiðum mínum síðustu ár, að komast inn í þessa hópa sem eru að reyna að setja heimsmet í því sem kallað er stór mynsturstökk þar sem eru yfirleitt eitthvað yfir hundrað manns að reyna að búa til eitthvað sniðugt í háloftunum, eitthvað sem er á mörkum þess sem er mögulegt, mannlega.“

Það er ekki allra að átta sig í einu vetfangi á hvað það er sem Jón Ingi Þorvaldsson, tölvunarfræðingur og fallhlífarstökkvari, er að fara í klausunni hér að ofan, en þar er um að ræða eina af ástríðum hans í lífinu, stökk út úr flugvél langt yfir yfirborði jarðarkringlunnar – ef ekki einn síns liðs þá í stórum hópi fólks.

Jón Ingi tekur rándýra sjálfsmynd yfir Öskju í Dyngjufjöllum.
Jón Ingi tekur rándýra sjálfsmynd yfir Öskju í Dyngjufjöllum. Ljósmynd/Aðsend

Það er einmitt það sem fyrir dyrum stendur nú næstu daga, ætlunin er að reyna við heimsmet í mynsturstökki yfir hinu bandaríska Arizona-ríki þar sem Jón Ingi hyggst stökkva við 154. mann út úr samtals sjö flugvélum sem koma hópnum upp í háloftin. Látum frásögn hans hljóma um stund.

Stundar þetta ekki úti í garði

„Ég hef tvisvar fengið tækifæri til að taka þátt í heimsmetstilraunum. Árið 2022 var reynt við tvö heimsmet og það vildi svo til að ég komst inn í báða þá hópa sem voru að reyna við það. Þá var annars vegar reynt við hundrað manna heimsmet í Frakklandi um sumarið og svo var reynt við 150 manna met í Kaliforníu um haustið,“ segir Jón Ingi frá sem situr undir stýri einmitt á þjóðvegum þess ríkis á leið til nágrannaríkisins Arizona á meðan hann segir frá.

Svifið til jarðar í fósturjarðarlegri fallhlíf.
Svifið til jarðar í fósturjarðarlegri fallhlíf. Ljósmynd/Dennis Sattler

„Því miður gengu þær tilraunir ekki upp og síðan þá hef ég bara verið að vinna í því statt og stöðugt að bæta mig og sækja eins margar æfingabúðir og viðburði og hægt er sem hjálpa mér að halda mér á því stigi sem ég þarf að vera á,“ segir Jón Ingi frá, en eins og álykta má af orðum hans útheimtir þetta sérstaka áhugamál töluverð ferðalög.

Er þetta ekki rosalegt vesen að standa í?

„Ja, eins og ég hef nú oft sagt þá er þetta ekki beinlínis sport sem þú stundar í bakgarðinum heima hjá þér,“ segir Jón Ingi og heyrist glotta við tönn gegnum símtalið. Þar hefur hann lög að mæla því hópstökkin, sem hann leitast við að vera hluti af, er aðeins hægt að stunda á örfáum stöðum í heiminum – skiljanlega miðað við umstangið sem þau útheimta.

Þarf ákveðinn flugflota

„Það er hægt að stunda fallhlífarstökk á hundruðum ef ekki þúsundum staða í heiminum, en þetta eru kannski tíu staðir sem er verið að koma saman í þetta stórum hópum og skipuleggja stökk af þessari stærðargráðu,“ segir ofurhuginn, sem einnig hefur keppt í kappakstri, orðið margfaldur Íslandsmeistari í karate og stundað salsadans af innlifun – ólíkt hafast mennirnir að. Hann er spurður út í þær aðstæður sem finnist á svo fáum stökkstöðum.

Stjarna yfir píramídunum í egypsku meti sem sett var í …
Stjarna yfir píramídunum í egypsku meti sem sett var í fyrra. Ljósmynd/Juan Mayer

„Fyrst og fremst þarf ákveðinn flugflota,“ byrjar Jón Ingi. „Þessar vélar sem eru sérútbúnar fyrir fallhlífarstökk taka kannski 20-25 manns svo til að koma hundrað manns í loftið á sama tíma þarf þá fimm flugvélar og það er ekki nema á örfáum stöðum í heiminum sem slíkur flugfloti er til staðar,“ segir hann og talar um fimm-sex staði í Bandaríkjunum þar sem aðstaða sé fyrir hendi og þrjá-fjóra staði í Evrópu.

Settir þú ekki Ástralíumet núna ekki alls fyrir löngu?

„Jú, það passar, árið 2019 komst ég inn í hóp sem setti ástralskt met,“ svarar stökkvarinn og segir frá stífum hópstökksreglum andfætlinga okkar í Ástralíu. „Reglurnar hjá ástralska fallhlífarstökksambandinu eru þannig að metið telst gilt séu að minnsta kosti 75 prósent þátttakenda ástralskir ríkisborgarar eða búa í Ástralíu,“ útskýrir Jón Ingi sem auðnaðist að komast inn í þann fjórðung hópsins sem var fenginn til að „fylla í skarðið“ eins og hann orðar það.

Jón Ingi skælbrosandi með fornegypskt grafhýsi í baksýn. Myndavélin á …
Jón Ingi skælbrosandi með fornegypskt grafhýsi í baksýn. Myndavélin á hjálminum vitnar um gríðarlegt safn fallhlífarstökksmynda í einkasafni enda hefur tölvunarfræðingurinn og karatemeistarinn stokkið vel á annað þúsund stökk. Ljósmynd/Aðsend

Metið sem aldrei verður slegið

„Þar settum við met sem stendur enn sem var 130 manna mynstur og það er stærsta stökk sem ég hef tekið þátt í enn þá,“ segir hann en hyggst nú á næstu dögum reyna við 154 manna stökk í flokki þar sem krafan er að hópurinn myndi tvö mynstur á himnum í stökkinu og leysi hið fyrra algjörlega upp áður en tekið er til við að mynda síðara mynstrið. Að þessu er ekki hlaupið eins og hann útskýrir.

„Þá er ekkert svakalega mikill tími til stefnu. Við förum í talsvert meiri hæð en venjulega í svona stórum stökkum, þannig að í staðinn fyrir að hafa bara eina mínútu höfum við um 90 sekúndur til að koma saman. Svo er gefið merki, allir sleppa gripum og fara svo í næsta mynstur og að lokum þurfum við að hafa 15-20 sekúndur til að koma okkur eins langt frá hvert öðru og við getum áður en við opnum fallhlífarnar,“ lýsir Jón Ingi.

Frá Ástralíumetinu árið 2019. Reglur viðurkenna ekki Ástralíumet nema 75 …
Frá Ástralíumetinu árið 2019. Reglur viðurkenna ekki Ástralíumet nema 75 prósent þátttakenda séu ástralskir ríkisborgarar eða búsettir í landinu. Jón Ingi komst í fjórðunginn sem notaður var til „uppfyllingar“ og metið var í höfn. Ljósmynd/Craig O'Brien

Segir hann aðspurður að heimsmetið í þessum tiltekna stökkflokki, sem þau stökkfélagarnir munu nú reyna sig í, sé 136 manns. Heimsmet í hópstökki með einu mynstri hljómar hins vegar óraunverulega í eyrum blaðamanns – það settu 400 manns yfir Taílandi árið 2004 „og það verður líklega seint eða aldrei slegið“, segir viðmælandinn sem hins vegar eru mjög trúverðugar upplýsingar. Hann lýsir framkvæmd metsins sem aldrei verður slegið eftir að hafa fullvissað sig um að hafa tekið rétta beygju á akstri sínum.

„Já, nú er ég kominn á braut sem ég á víst eftir að vera á í 285 mílur svo maður getur líklega bara slökkt á GPS-inu í bili,“ greinir Jón Ingi frá með tæplega 460 kílómetra stím fram undan þar til hann þarf að íhuga staðsetningu sína næst. Fátt getur truflað það sem eftir lifir þessa viðtals.

Reynt við heimsmet í Frakklandi 2022, myndarleg stjarna stökkvara nálgast …
Reynt við heimsmet í Frakklandi 2022, myndarleg stjarna stökkvara nálgast yfirborð jarðar með ógnarhraða. Þegar sú stund nálgast að opna þarf fallhlífarnar þarf hópurinn að dreifa sér með hraði og stökkvarar að koma sér sem lengst frá næsta manni. Eins er ekki heppilegt að lenda beint fyrir ofan einhvern. Ljósmynd/Antje Grube

Eitt mynstur eða fleiri – reginmunur

„Metið í Taílandi var sett í samvinnu við taílenska herinn. Þegar verið er að koma svona svakalegum fjölda í loftið þarf náttúrulega öðruvísi flugvélar og þarna voru fengnar fimm Hercules C-130-herflutningavélar sem taka svona 80-100 manns hver og þarna var 400 manns sturtað úr fimm flugvélum,“ lýsir Jón Ingi.

Hann segir muninn gríðarlegan á að koma saman í eitt mynstur í stökki annars vegar og hins vegar tvö eða fleiri. „Heimsmetið í að búa til tvö mynstur er 136 manns, heimsmetið í að búa til þrjú mynstur í sama stökki er 108 manns, það eru flokkarnir sem keppt er í – fjöldi mynstra – og í hverjum flokki er svo alltaf verið að reyna að búa til stærra og stærra mynstur,“ útskýrir Jón Ingi.

Eru horfurnar góðar, hvernig hefur hópnum gengið að koma saman og æfa?

„Í hópi þeirra sem eru að stússast í þessu á þessu stigi þekkja flestir flesta og í þessu tilviki er búið að velja mjög gaumgæfilega í þennan hóp og ég hef mikla trú á því að þarna sé kominn einn sterkasti hópur sem hægt er að setja saman á heimsvísu og ég hef mikla trú á að þetta takist,“ er svarið.

Úr eigin vösum

Viðburðurinn telur sex daga, þann fyrsta í dag, og segir Jón Ingi fyrstu tvo dagana fara í undirbúningsstökk þar sem ákveðnir hlutar mynstursins séu æfðir aðskilið frá öðrum. „Kjarnahópurinn í miðjunni stekkur þá sér og þeir sem eru utar í mynstrinu stökkva sér, þannig að stokkið verður í 40-60 manna hópum fyrstu tvo dagana og svo fara síðustu fjórir dagarnir í að reyna við heimsmetið og þá er stokkið fjórum til fimm sinnum á dag,“ segir Jón Ingi og blaðamaður spyr um kostnaðarhliðina.

„Þetta er frá viðburði sem kallast
„Þetta er frá viðburði sem kallast "The Games" og var haldinn í Kaliforníu fyrir þremur vikum. Þar er ekki verið að reyna að setja met og þetta eru ekki beint æfingabúðir heldur, meira bara verið að gera sniðug mynstur,“ segir Jón Ingi frá. Ljósmynd/Craig O'Brien

„Þátttakendurnir greiða mestallan kostnaðinn. Einhverjir styrktaraðilar greiða hluta, en stærsti hluti kostnaðarins kemur bara úr eigin vasa þátttakenda og er um það bil 1.200 til 1.400 dollarar á haus,“ segir Jón Ingi um leið og hávært flaut rýfur annars þægilega stemmninguna í viðtalinu. „Jæja, þarna var einn að svína fyrir mig,“ segir Jón Ingi með sama jafnaðargeðinu og einkennt hefur fas hans og framkomu fram til þessa og raunar í fyrri viðtölum hans við mbl.is einnig.

Verðið sem hann nefnir er á gengi dagsins í dag 164.000 til 191.000 krónur og túlki nú hver sem vill eftir eigin skoðunum og lífsýn hvort það teljist hóflegt eður ei fyrir sex daga af adrenalíni.

Talandi um gengi, að loknu spjalli þessu spyrjum við að hinum sígildu leikslokum og mbl.is mun að sjálfsögðu færandi hendi skila gengi Jóns Inga Þorvaldssonar í heimsmetstilraun sinni í Arizona til lesenda þegar örlögin hafa kveðið upp sinn óvissa dóm.

Þrjár flugvélar skila ofurhugunum út í tómið, Jón Ingi svífur …
Þrjár flugvélar skila ofurhugunum út í tómið, Jón Ingi svífur í rauðu fyrir miðri mynd. Ljósmynd/Charlie McGee
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert