Í Veröld – húsi Vigdísar bíður hin suðurkóreska Yeonji Ghim með glænýja barnabók sína fyrir framan sig. Yeonji, sem er frá stórborginni Seúl, kynntist íslenskum manni í Japan þegar hún var þar í námi. Þau fluttu heim til Íslands árið 2015 og nú er Yeonji í doktorsnámi hér, auk þess að vera móðir eins árs drengs, Jóhanns. Yeonji, borið fram Jonsjí, er upptekin kona í krefjandi námi en fann þó tíma til að láta gamlan draum rætast, að skrifa barnabók sem fékk titilinn Einmanalegasta hús í heiminum. Yeonji notar skáldanafnið Y. G. Esjan.
„Ég hef alltaf haft mikinn áhuga á norrænni menningu og þegar ég var í námi í Japan sótti ég gjarnan viðburði þar sem norræn málefni voru á dagskrá. Þar eignaðist ég marga vini frá Norðurlöndunum. Og í framhaldi hitti ég hinn íslenska eiginmann minn, Hafþór, og við fluttum svo hingað,“ segir Yeonji.
„Við komuna hingað bjuggum við fyrst í Vogum. Ég verð að viðurkenna að fyrst þegar ég kom til landsins var ég ansi undrandi, því ég hafði haft ímynd í huganum af evrópskum löndum, en hér er landslagið og veðrið allt öðruvísi en ég bjóst við. Þetta er svo ólíkt öllum öðrum stöðum sem ég hef komið á í heiminum,“ segir hún.
„Veðrið hér getur verið svo drungalegt, sem ýkti upp einmanaleikann sem ég fann fyrir í byrjun. Ég flutti hingað að hausti og veðrið var afar slæmt; endalausir stormar. Á þeim tíma var ég ekki með bílpróf og maðurinn minn vann í Reykjavík langa vinnudaga, jafnvel tólf tíma eða lengur. Þannig að ég var svo mikið ein. Jafnvel þegar ég gekk um Voga sá ég engan! „Hvar eru allir?“ hugsaði ég oft. Það var eins og ég væri alein í heiminum á hverjum degi,“ segir Yeonji og nefnir að þegar maður hafi búið í borgunum Seúl og Tókýó séu það mikil viðbrigði að flytja í Voga á Vatnsleysuströnd.
„Í byrjun var ég ekki í vinnu og kunni ekki tungumálið. Við fluttum svo eftir nokkra mánuði til Reykjavíkur en einmanaleikinn hvarf samt sem áður ekkert. Við bjuggum í miðbænum en ég var samt einmana, jafnvel þótt ég hefði gæludýr og væri að fara út á meðal fólks. Í byrjun voru flestir vinir mínir útlendingar, oft fólk sem stoppaði ekki lengi við á landinu. Þegar það flutti á brott varð ég mjög einmana. Það var ekki fyrr en ég eignaðist íslenskar vinkonur að einmanaleikinn hvarf og þá kviknaði sú tilfinning að ég tilheyrði samfélaginu. Þessar stelpur sýndu mér íslenska menningu sem ég hafði ekki áður séð; þær kynntu mér bestu veitingastaðina, hvar ég ætti að versla og tónlist sem þær voru að hlusta á. Hugrún vinkona mín bauð mér eitt sinn með á Októberfest og kenndi mér öll bestu íslensku partílögin. Það var svo skemmtilegt! Það er mikill menningarmunur á Íslandi og Kóreu, allt niður í hvaða snyrtivörur maður notar. En þær sýndu mér þetta allt og þá fannst mér ég verða hluti af samfélaginu.“
Talinu víkur að barnabókinni sem Yeonji hefur nú skrifað og gefið út.
„Þegar ég var yngri fannst mér gaman að skrifa sögur sem ég birti á netinu. En svo varð ég fullorðin, fór að vinna og hætti að skrifa,“ segir Yeonji.
„Eitt sinn, eftir að ég var flutt til Íslands, átti ég í samtali við kennara sem hafði kennt mér í barnaskóla, í átta ára bekk. Hún spurði mig hvað ég væri að gera á Íslandi og ég svaraði að ég væri að vinna hjá ferðaskrifstofu, en þar vann ég í byrjun. Hún var mjög hissa og sagðist hafa haldið að ég væri að skrifa bækur af því að ég elskaði alltaf bækur sem barn og hafði meira að segja komið á fót lítilli bókaútgáfu í bekknum,“ segir hún.
„Ég sagði henni að ég væri Kóreubúi sem byggi á Íslandi; hvernig í ósköpunum ætti ég að skrifa hér bók! En eftir nokkur ár hér sá ég að ég gæti vel gert það, með hjálp þýðanda,“ segir hún.
„Ég hef lesið margar bækur á ævinni en hafði aldrei lesið neitt um Ísland, en heimurinn þarf að vita meira um Ísland! Sagan er um litla pólska stúlku, Kasíu, sem flytur til Klappareyjar, eyju við Ísland. Í sögunni er fjallað um einmanaleika, tungumálaerfiðleika í nýju landi og persónulegan þroska. Vegna áfallsins við að flytja í nýtt land hættir hún að geta kyngt mat. Á eyjunni finnur hún ró við það að kynnast lundapysju. Hún verður síðan afar sorgmædd þegar pysjan yfirgefur hana í lok sumars. Til að komast yfir sorgina fara foreldrar hennar með hana í ferðalag umhverfis Ísland, og síðar fær hún hvolp,“ segir Yeonji.
Í bókinni eru afar fallegar og látlausar vatnslitamyndir og segir Yeonji að hún hafi vandlega valið hver ætti að myndskreyta söguna.
„Ég vildi að bókin yrði mannleg; bæði texti og myndir, nú á tímum gervigreindar. Ég vildi hafa þetta klassískt og hefðbundið og í anda Litla prinsins. Ég fann svo teiknara sem uppfyllti öll þessi skilyrði og ekki nóg með það, heldur kom í ljós að hún elskar lunda. Mér fannst þetta vera skrifað í skýin og vissi að ég yrði að vinna með henni,“ segir Yeonji, en teiknarinn kallar sig Luna Stella D. Bókin fæst einnig á tveimur tungumálum; ensku og íslensku, sem gæti auðveldað erlendum börnum og fullorðnum að læra íslensku, en bókin fæst í Pennanum. Yeonji hefur sýnt kóreskum útgefanda handritið og segir hann hafa tekið afar vel í að gefa hana út í Kóreu.
Hefurðu komist yfir einmanaleikann?
„Ég er miklu sjaldnar nú einmana en áður. Auðvitað verð ég stundum einmana, en nú sé ég það ekki endilega sem eitthvað neikvætt. Einmanaleikinn er hluti af mannlegri reynslu og hann hjálpaði mér að skapa afar fallega sögu.“
Ítarlegt viðtal er við Yeonji um lífið á Íslandi, vísindi og listir í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina.