Læknafélag Íslands hefur tilkynnt félagsmönnum sínum að það hyggist boða til nýs verkfalls með þeim hætti sem ríkið telji að sé löglegt.
Þau tíðindi bárust félagsmönnum Læknafélagsins á aðalfundi þess á föstudaginn að íslenska ríkið telji boðun á verkfalli ólögmæta og sagði Steinunn Þórðardóttir, formaður Læknafélagsins, við mbl.is í gær að þessi tíðindi hafi hleypt illu blóði í félagsmenn sína.
„Við erum búin að senda tölvupóst til félagsmanna þar sem við útskýrum okkar afstöðu. Við erum ósammála ríkinu að okkar aðferðafræði í kringum boðun aðgerða hafi verið ólögmæt en á sama tíma teljum við að ef þetta fer fyrir félagsdóm þá muni það fresta verkfalli óháð niðurstöðu félagsdóms,“ segir Steinunn við mbl.is í dag.
Hún segir að í staðinn fyrir að seinka verkfalli frekar þá ætli Læknafélagið að boða til nýrrar atkvæðagreiðslu sem vonandi getur hafist á morgun og mun standa yfir í tvo til þrjá daga.
„Við munum fara eftir ábendingum ríkisins þó svo að við séum ósammála því. Það verður kosið á hverri stofnun fyrir sig og að hver stofnun fari þá í verkfall samtímis. Við vorum að reyna að fara mildilega varðandi Landspítalann og taka bara einstaka deild í einu en þetta veldur því að við neyðumst til að boða verkfall á öllum Landspítalanum samtímis sem er töluvert harkalegra en við gerðum ráð fyrir,“ segir Steinunn.
Verkfallsaðgerðir lækna áttu að hefjast 18. nóvember en í ljósi boðunar nýs verkfalls segir Steinunn að aðgerðirnar muni hefjast viku síðar eða 25. nóvember ef ekki nást samningar fyrir þann tíma.
Nýr fundur í kjaradeilunni hefur verið boðaður hjá ríkissáttasemjara klukkan 9 í fyrramálið.
„Við höfum að okkar mati sýnt gríðarlega biðlund. Við erum búin að vera hjá sáttasemjara í sjö mánuði og okkur finnst tími kominn að það fari eitthvað að gerast við samningaborðið. Við höldum áfram með samtalið á morgun,“ segir Steinunn.