Matthew McVarish, aðgerðarsinni og einn stofnenda samtakanna Brave Movement sem berjast gegn kynferðisofbeldi gegn börnum, segir öra tækniþróun síðustu ára hafa í för með sér ný og flókin vandamál.
Árið 2007 hafi ný kynslóð fæðst sem aldrei hafi lifað í heimi án snjallsíma og lifi því og hrærist í raun í nýjum heimi sem eldri kynslóðirnar hafi takmarkaðan skilning á.
„Þó að það sé erfitt verða foreldrar að skilja að hinn stafræni heimur og það sem á sér stað í honum er raunverulegt fyrir þessum ungmennum,“ segir McVarish.
„Ég veit ekki hvernig það er á Íslandi en í Bretlandi eiga 100% 17 ára unglinga snjallsíma.“
McVarish er einn þeirra sem héldu tölu á málþingi á vegum Háskóla Íslands og barnamálaráðuneytisins um kynferðisofbeldi gegn börnum með notkun gervigreindar í síðustu viku og ræddi við blaðamann mbl.is að málþinginu loknu.
Árið 2007 var Lanzarote-samningurinn undirritaður, Evrópuráðssamningur sem snýr að vernd barna gegn kynferðislegri misbeitingu og kynferðislegri misnotkun.
Í sama mánuði kynnti Steve Jobs heitinn snjallsíma tæknirisans Apple sem hann sagði myndu breyta heiminum – og svo varð. Með tilkomu símans varð sú áralanga vinna sem lá að baki samningnum allt í einu mörgum skrefum á eftir.
„Við höfðum beitt okkur fyrir undirritun þessa samnings í áratugi og í sama mánuði og við komum honum í gegn breyttist heimurinn,“ segir McVarish.
„Við vorum strax komin í kapp við eitthvað sem var hlaupið frá okkur áður en við náðum að hefjast handa.“
McVarish varð sjálfur fyrir kynferðislegu ofbeldi af hendi frænda síns þegar hann var barn sem er ástæða þess að hann berst gegn ofbeldi gegn börnum í dag. Kveðst hann feginn að ofbeldið hafi átt sér stað fyrir tíma snjallsímatækninnar.
„Það er kannski skrítið að segja það en ég er feginn að það var brotið á mér á níunda og tíunda áratugnum því það þýddi að frændi minn tók engar myndir af mér,“ sagði McVarish alvarlegur í bragði í erindi sínu á málþinginu.
Hann segir misskilnings gæta um að djúpfalsað kynferðislegt efni með börnum sé án fórnarlamba.
Það er ekki rétt að hans sögn, enda sé gervigreindarmyndefni framleitt úr myndefni sem þegar er aðgengilegt á netinu.
„Ef það er mynd af barni sem er fullklætt og svokallað afklæðingarforrit er notað á myndina, þá notar forritið mynd af líkama barns sem hefur raunverulega verið beitt kynferðisofbeldi.
„Þannig að það eru raunar fleiri en eitt fórnarlamb fyrir hverja djúpfalsaða mynd.“
Hann segir marga fullorðna eiga erfitt með að setja sig í spor ungu kynslóðarinnar sem hafi að fullu alist upp í heimi snjallsíma, internetsins og nú gervigreindar. Margir geri sér ekki grein fyrir þeim alvarlegu áhrifum sem það sem gerist á netinu geti haft á sálarlíf barna og ungmenna.
Dæmi séu um að ungmenni noti gervigreindarforritin til að hrekkja skólasystkin sín og framleiða myndefni af þeim þar sem þau virðast nakin.
Með forritinu sé til að mynda hægt að ákvarða stærð líkamshluta sem sé oftar en ekki gert með ýktum hætti til að niðurlægja þann sem myndin er af.
„Þarna raungerist martröðin sem flest okkar þekkja, þar sem maður stendur fyrir framan bekkinn sinn, lítur niður og uppgötvar að maður er nakinn.
Fyrir þeim er þetta raunverulegt áfall og raunveruleg niðurlæging. Það er raunverulegt þegar börn svipta sig lífi vegna skammarinnar og angistarinnar sem fylgir þessu ofbeldi.“
Foreldrar og fullorðnir þurfi að vera meðvitaðir um að börn og ungmenni gangi um með lítinn heila í vasanum, eins konar gátt inn í annan heim. Þá geti línan á milli sakleysislegrar skemmtunar og skaðlegrar hegðunar oftar en ekki farið að verða óljós.
Hann nefnir einnig að ung börn hafi sum hver orðið vitni að því að netgervingum (e. avatars) þeirra sé nauðgað í netleikjaheimi.
„Þessi kynslóð, 17 ára krakkar, 15 ára krakkar, þau gera ekki sálrænt greinarmun á persónu sinni á netinu og raunverulegu sjálfi,“ segir McVarish.
„Þannig að þegar netgervingi þeirra er nauðgað, þá er sálræni skaðinn alveg jafn mikill.“
Á sama tíma þurfi að horfast í augu við að margir unglingar eigi í raunverulegum kynferðislegum og rómantískum samskiptum í gegnum síma með fullu samþykki beggja.
Það muni að hans mati bera lítinn árangur að reyna að stöðva notkun ungmenna á snjallsímum, gervigreind og netinu með öllu, en brýnt sé að eiga í opnum og stöðugum samræðum um notkunina og hætturnar sem henni fylgja, við matarborðið heima.
Mikilvægt sé að beita sömu uppeldisaðferðum í netheimum og í raunheimum. Foreldrar þurfi ekki að panikka heldur eiga í opnu og stöðugu samtali við börnin sín.
„Ef barnið þitt er að leika sér úti í garði og einhver á bíl er alltaf að keyra upp að því til að tala við það og keyra svo í burtu, þá myndirðu sem foreldri eðlilega spyrja: „Hei, hver er þetta og af hverju er viðkomandi að tala við þig?“ En við sjáum oft ekki að það sama er að gerast inni í herberginu þeirra. Hættan getur jafnvel verið meiri á netinu.“