„Nái ég ekki að skrifa í þrjá eða fjóra daga í röð þá líður mér eins og unnið sé gegn mér,“ segir Kristín Marja Baldursdóttir rithöfundur í samtali við Sunnudagsblað Morgunblaðsins.
„Ég skrifa aldrei á laugardagsmorgnum; þá er ég að lesa blöðin. Annars er ég alltaf að skrifa. Man til dæmis ekki eftir neinu sumarfríi eftir að ég sneri mér alfarið að ritstörfunum,“ bætir hún við.
– Hefurðu sjálf alltaf jafnmikla ánægju af því að skrifa?
„Já, jeminn hvað mér myndi leiðast ef ég væri ekki að skrifa.“
Um þessar mundir brjótast tvær ólíkar bækur um í höfði hennar. Annars vegar skáldsaga og hins vegar safn ritgerða. Hvorug þeirra er skrifuð en báðar komnar í ferli, eins og Kristín Marja orðar það. „Stundum er erfitt að ná í réttu orðin, rétta stílinn, rétta formið. Það er í grunninn erfitt að skrifa skáldsögu en svo kemst maður á þann stað að allt fer að flæða og maður veit ekkert hvað hefur gerst. En það veitir manni gleði og ánægju. Ætli það sé ekki fyrst og fremst gleðin sem ég er að sækjast eftir.“
Hún kveðst hafa lært á Mogganum, þegar hún vann þar sem blaðamaður, að skrifa óháð því í hvernig skapi hún væri þá stundina. „Ég lærði að ég gæti skrifað þó ég væri döpur, reið eða í uppnámi. Það er engin afsökun að skrifa ekki þó maður sé leiður eða í uppnámi enda gleymir maður leiðindunum hratt þegar maður er að skrifa. Ég hafði alltaf mikla ánægju af því að skrifa blaðagreinar og hef haldið mér við með þessum esseyjum mínum.“
Nánar er rætt við Kristínu Marju í Sunnudagsblaðinu en hún var að senda frá sér nýja skáldsögu, Ég færi þér fjöll.