Svandís Svavarsdóttir, formaður VG, segist ekki hafa neinar upplýsingar um hjúkrunarheimili sem hún undirritaði samning um árið 2021 og átti að vera tilbúið 2026. Ekkert bólar enn á framkvæmdum.
Þetta kemur fram í ítarlegu viðtali við hana á vettvangi Spursmála. Þar var hún spurð út í hjúkrunarheimili sem reisa átti við Mosaveg í Grafarvogi. Þegar hún var heilbrigðisráðherra 2021 undirritaði hún samning um það við Dag B. Eggertsson, þáverandi borgarstjóra í Reykjavik.
Hjúkrunarheimilið átti að státa af 140 rýmum og kosta innan við 8 milljarða króna á verðlagi þess tíma. Árið 2023 leitaði Morgunblaðið svara við því hvar framkvæmdir við hjúkrunarheimilið væru staddar, enda fullyrtu ráðherra og borgarstjóri tveimur árum fyrr að framkvæmdir myndu hefjast þá þegar. Borgin bendir á ríkið og ríkið á borgina. Enginn virðist vita nokkurn skapaðan hlut um það hvernig málið er statt og allra síst heilbrigðisráðherrann þáverandi.
Í viðtalinu í Spursmálum er Svandís spurð út í ljósmynd sem sýnir grasigróinn blettinn við Mosaveg þar sem hjúkrunarheimilið átti að rísa.
Í tengslum við þetta atriði spunnust talsverðar umræður í viðtalinu um stöðu heilbrigðisþjónustunnar og af hverju Svandís hefur nýtt hvert tækifæri sem gefst til þess að leggja stein í götu einkarekinnar heilbrigðisþjónustu.
Orðaskiptin um þetta má sjá í spilaranum hér að ofan en þau eru einnig rakin í ítarlegu máli í textanum hér að neðan.
Þá langar mig til að ræða við þig aðeins um heilbrigðismálin. Mig langar til að draga upp eina mynd í viðbót. Ég hef svo gaman af því að varpa upp myndum á þessa fallegu skjái okkar. Þetta er eiginlega þrautabraut núna. Veistu hvaða fallegu strá þetta eru?
„Nei.“
Þetta er Mosavegur í Grafarvogi. Árið 2021 undirritaður þú samning við Dag B. Eggertsson um að reisa hjúkrunarheimili á þessari lóð. Þú varst þá heilbrigðisráðherra og búin að vera í fjögur ár. Þið sögðuð að framkvæmdir myndu hefjast þá þegar árið 2021 og að framkvæmdum myndi ljúka 2026 og þarna átti að rísa 140 rýma hjúkrunarheimili. Ég tók þessa mynd á Mosaveginum á mína ágætu Leica-myndavél í gær...
„Þetta er rosalega flott hjá þér. Ég hélt að ég ætti að vita hverskonar puntur þetta væri, þetta strá þarna.“
Þetta er ekki grasafræði.
„Nei, við fórum nefnilega beint úr náttúrufræðinni í þetta.“
Ja, það er vonandi ekki vegna náttúruverndar sem þið hafið ekki byrjað á þessum framkvæmdum. Hvernig stendur á því að þið undirritið samkomulag...
„Þú verður að spyrja Reykjavíkurborg að því.“
Við erum búin að spyrja þá að því. Þið ætluðuð að borga 85% af kostnaðinum.
„Já, þú verður að spyrja Willum að því. Ég hef ekki komið nálægt þessum málum síðan ég skrifaði...“
Þú situr í ríkisstjórn, þú ert formaður VG og þú undirritaðir samninginn.
„Já, já. Það er flott hjá þér að vera vel lesinn en ég hef bara ekki þessar upplýsingar á hraðbergi. En ég get náð í þessar upplýsingar. Ég bara veit það ekki. Ég bara veit það ekki.“
En hvernig stendur á því að stjórnvöld, þú veist sem einn af leiðtogum stjórnarflokkanna að við erum með fráflæðisvanda á Landspítalanum...
„Stefán, ég er ekki með upplýsingar um þetta á hraðbergi. Þetta er spennandi og áhugaverð spurning en svarið færðu ekki í þessum þætti því ég hef ekki aflað mér upplýsinga um þetta.“
En hvað segir þetta um stefnu stjórnvalda? Nú er fráflæðisvandi Landspítalans staðreynd. Ég hef spurt forstjóra Landspítalans út í þetta mál og hann segir að þessi 140 rými myndu fara langt með að losa um fráflæðisvanda spítalans. Þið eruð stjórnarherrar, ykkur er ekið um á glæsilegum ráðherrabílum...
„Ekki lengur. Nú er ég bara að keyra sjálf.“
En þið getið ekki leyst svona mál. Þið getið ekki leyst svona mál. Þið getið sett 28 milljarða í hælisleitendakerfið á ári, þetta er verkefni sem átti að kosta innan við 8 milljarða. Ég held að almenningur á Íslandi spyrji, hvað er þetta fólk að gera? Er þetta Willum að kenna?
„Nei, þetta er ekkert Willum að kenna og raunar hafa verið teknir frá peningar í uppbyggingu hjúkrunarheimila miklu meira en við höfum getað komið í lóg af ýmsum ástæðum og meðal annars vegna samskipta við sveitarfélögin sem þú ert með dæmi um hér. Og fráflæðisvandinn sem er bara mjög alvarlegur og við sjáum bara með fjölgun aldraðra hlutfallslega þá mun hann vaxa. Við munum ekki bara leysa hann bara með því að fjölga hjúkrunarrýmum. Við munum líka leysa hann með því að bæta heimahjúkrun og heimaþjónustu. Sem er ofsalega mikilvægt að sé í þeim anda að við komum til móts við hvern og einn. Fólk hefur mjög mismunandi vilja því gamalt fólk er allskonar fólk. Við tölum stundum eins og gamalt fólk breytist í einhverja tegund þegar það kemst á ákveðinn aldur. En það hefur bara mismunandi vilja. Sumir vilja vera innan um aðra, aðrir vilja vera heima hjá sér lengur. En stuðningurinn þarf að vera fyrir hendi,“ segir Svandís.
Og hún bætir við:
„Ég held að prógrammið sem var sett af stað, bæði af Guðmundi Inga og Willum sem er undir yfirskriftinni það er gott að eldast, sem snýst um að samþætta þessi kerfi, að þau séu meira að tala saman. Félagsþjónusta sveitarfélaga, heilbrigðiskerfið og heilbrigðisþjónustan, heimilin sjálf, fjölskyldurnar og fólkið, samtök eldri borgara, og svo framvegis. Sé alveg ofsalega mikilvægt skref. Ég hef líka sagt það og sagði það þegar ég var í heilbrigðisráðuneytinu að við eigum að leggja meiri áherslu á dagþjálfun, við eigum að leggja meiri áherslu á að fólk geti verið heima á nóttunni og um helgar en geti farið í einhverja svona þjónustu eða samveru með öðrum yfir daginn...“
En þau fyrirtæki sem veita besta þjónustu í þessum efnum, langöflugustu hjúkrunarheimilin sem koma best út í öllum samanburði, það á reyndar við um heilsugæsluna líka, þetta eru einkarekin fyrirtæki. Einkareksturinn er algjört eitur í þínum beinum. Þú leggur stein í götu einkarekstursins hvar sem þú kemur því við.
„Já, já. Einmitt. Ég hef lagt áherslu á það og gerði það þegar ég var heilbrigðisráðherra að þá lagði ég mjög mikla áherslu á að styrkja opinbera heilbrigðisþjónustu. Að leggja aukið fjármagn í Landspítalann þar sem hinn margumræddi fráflæðisvandi náttúrulega er og því skiptir miklu máli að hann sé fjármagnaður vel.“
En hann lagast ekki fyrr en þú lagar hjúkrunarheimilin.
„En líka það sem kallað er þjónustutengd fjármögnun þar sem við erum með augun betur á boltanum yfir það í hvað fjármagnið er að fara í rekstrinum. Því þetta er alveg gríðarlega stór eining. Að byggja upp nýjan meðferðarkjarna þannig að við getum farið með þetta inn í framtíðina.“
En einkareknu fyrirtækin fá jafn mikla peninga með þjónustunni og þau opinberu. Einkareknu fyrirtækin eru að fara betur með peninginn og veita betri þjónustu. Af hverju ertu á móti...
„Já, já. Þetta eru bara einhverjar fullyrðingar.“
Nei, nei, nei, Svandís. Horfum á heilsugæsluna. Þar er einkarekna heilsugæslan hún er betur mönnuð, hún er í betra húsnæði, það eru styttri biðlistar, það eru líka þjónustukannanir sem staðfesta það líka að þær koma betur út en opinberu stöðvarnar. Þetta eru ekki bara einhverjar fullyrðingar. Þetta eru staðreyndir.
„Já, já. Það eru náttúrulega líka ákveðnar skyldur sem hvíla á opinberu heilsugæslunni, Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins...“
Því fylgir aukið fjármagn.
„... sem lýtur að því að sinna nemum, að sinna ákveðinni skráningu og ákveðnu utanumhaldi.“
Og því fylgir aukið fjármagn.
„Já, já. Því fylgir aukið fjármagn.“
Ef þú myndir láta það fjármagn fylgja til einkareknu stöðvanna þá gætu þær sinnt þessu líka.
„En það sem ég ætla að segja og mér hefur fundist skipta máli að sú þjónusta sem við erum að kaupa sem ríki eða Sjúkratryggingar Íslands, af einkaaðilum sem eru að veita heilbrigðisþjónustu að þau kaup séu á grundvelli einhverskonar greiningar á því hvað þarf og hvað þarf á grunni heilbrigðisstefnu og mats á því hverskonar heilbrigðisþjónustu er þörf fyrir í...“
En þarf ekki slíkt mat að eiga sér stað bæði gagnvart þeim opinberu aðilum sem veita þjónustuna og einkaaðilunum?
„Og er gert, og er gert, og er gert, og er gert. Þessi greining á sér stað líka þar og í heilbrigðisstofnunum út um allt land.“