Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu lokaði einum skemmtistað í borginni á föstudagskvöldið þar sem hann var ekki með tilskilinn rekstrarleyfi í gildi.
Þetta segir Ásmundur Rúnar Gylfason, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, við mbl.is en lögreglan hefur verið með virkt eftirlit með veitinga- og skemmtistöðum borgarinnar síðustu helgar.
„Það er ánægjulegt að segja að þetta hefur heilt yfir komið nokkuð vel út en við höfum heimsótt tugi staða síðustu helgar. Það eru langflestir komnir með sína hluti í lag og við fögnum því,“ segir Ásmundur.
Hann segir að eftirlitið snúi að því að veitinga- og skemmtistaðirnir séu með tilskilin rekstrarleyfi, og ef þeir eru með rekstrarleyfi samkvæmt dyraverði þá sé kannað hvort þau séu til staðar og verðirnir séu með gild réttindi.
„Þá könnum við það hvort einhverjir unglingar séu inni á stöðunum eftir að þeir eigi ekki að vera þar, og ef við verðum varir við einhver önnur frávik þá upplýsum við aðra eftirlitsaðila um það,“ segir hann.