Viðbragðsaðilar náðu einstaklingi upp úr Tungufljóti, nálægt Geysi, fyrir skömmu. Hefur viðkomandi verið fluttur af vettvangi með sjúkrabíl.
Útkall barst á fjórða tímanum um að einn hefði fallið í ána.
Þetta kemur fram í tilkynningu lögreglunnar á Suðurlandi.
Mikill viðbúnaður var vegna atviksins og voru straumvatnsbjörgunarhópar boðaðir frá björgunarsveitum á svæðinu og höfuðborgarsvæðinu, auk þyrlu Landhelgisgæslunnar og sjúkrabifreiða frá Heilbrigðisstofnun Suðurlands.
Einstaklingurinn var fluttur af vettvangi með sjúkrabifreið en lögreglan gat ekki veitt frekari upplýsingar um líðan hans að svo stöddu.