Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu bárust þó nokkrar tilkynningar um umferðaróhöpp í nótt.
Í dagbók lögreglu segir að tilkynning hafi borist um að bifreið hafi verið ekið á gám hjá lögreglustöð 1 sem sinnir verkefnum í Austurbæ, Miðbæ, Vesturbæ og á Seltjarnarnesi.
Þegar lögregla kom á staðinn var þar maður við bifreiðina í annarlegu ástandi. Hann var handtekinn grunaður um að hafa ekið bifreiðinni þegar áreksturinn varð.
Þá barst tilkynning um að bifreið hafði verið velt í íbúðahverfi.
Tveir voru í bifreiðinni þegar hún valt og voru báðir vistaðir í fangaklefa í þágu rannsóknar málsins.
Tilkynning barst um slys hjá lögreglustöð 2 sem sinnir verkefnum í Hafnarfirði, Garðabæ og á Álftanesi.
Þar hafði verið ekið á gangandi vegfaranda. Sá virtist ekki mikið meiddur við skoðun á vettvangi.
Í umdæmi lögreglustöðvar 3 sem sinnir verkefnum í Kópavogi og Breiðholti var lögregla kölluð til vegna umferðarslyss þar höfðu tvær bifreiðar lent í árekstri.
Eitthvað var um slys á farþegum í bifreiðunum, en er dagbókin var send út rétt eftir klukkan 6 var ekki vitað um alvarleika meiðsla.