Sameyki stéttarfélag í almannaþjónustu sendi Kennarasambandi Íslands stuðningsyfirlýsingu í gær þar sem fram kemur að nauðsynlegt sé að launafólk standi með öðru launafólki í baráttunni fyrir bættum kjörum.
Frá þessu er greint á heimasíðu Kennarasambands Íslands en verkfall í níu skólum hófst í síðustu viku.
Lítið hefur þokast í samningaviðræðum Kennarasambands Íslands og Samband íslenskra sveitarfélaga en deiluaðilar funduðu síðast hjá ríkissáttasemjara í gær.
Stuðningsyfirlýsingin:
„Sameyki stéttarfélag í almannaþjónustu lýsir yfir stuðningi við kennara í réttinda- og kjarabaráttu þeirra. Leiðrétta þarf laun kvennastétta sem starfa í skólum og leikskólum landsins. Rannsóknir hafa sýnt að kennarastéttin er vanmetin í launum á vinnumarkaðnum og stærsta stökkið til að eyða launamun kynjanna er að leiðrétta laun kennara.
Stjórn Sameykis telur að nauðsynlegt sé að launafólk standi með öðru launafólki í baráttu þeirra fyrir bættum kjörum á vinnumarkaði, einkum kvennastétta þar sem nauðsynlegt er að launamunur kynjanna verði upprættur.“