Svandís Svavarsdóttir, formaður VG telur að Ísland eigi að ganga úr Atlantshafsbandalaginu, NATO. Ísland eigi að vera rödd friðar í heiminum. Hún segir að inngang Finnlands og Svíþjóðar breyti þarna engu um, né heldur sú ógn sem Evrópuþjóðir telja sig undir vegna útþenslustefnu Rússa.
Svandís segir í Spursmálum að ógnir samtímans séu margbreytilegar og að Íslendingar ættu fremur að búa sig undir varnir gegn netógnum, uppgangi hægri-öfgamanna og heimilisofbeldi. Segir hún raunar að hún vilji ekki ræða öryggismál fyrr en ástæða þykir til að loka Kvennaathvarfinu.
Ísland gerðist stofnaðili að NATO árið 1949 og hefur öryggisstefna landsins hvílt á 5. grein hins svokallaða Atlantshafssáttmála allar götur síðan. Hún kveður á um að árás á eitt aðildarríkjanna jafngildi árás á þau öll.
Kröftug orðaskipti um öryggismál í viðtalinu má sjá og heyra í spilaranum hér að ofan. En orðaskiptin eru einnig rakin í textanum hér að neðan.
„Okkar rödd fer betur að vera utan hernaðarbandalaga […] það sem er erindi okkar núna að mínu mati og maður finnur það mjög vel á þessum viðsjárverðu tímum […] að röddin sem er herlaus og gerir kröfu um friðsamlegar lausnir hefur aldrei verið mikilvægari en núna og ég held að það sé það sem Ísland vill, að Ísland sé friðsælt ríki.“
En hvernig ættum við að verja okkur ef á okkur yrði ráðist og við erum ekki innan NATO? Ef Rússar tækju upp á því eða hermdarverkamenn kæmu hingað?
„Við teljum bara að okkar staða sé öruggari með því að vera rödd friðar.“
En ef á okkur er ráðist þá dugar ekki að stökkva út á tröppur og kalla, friður um vora daga.
„Nei, nei. Þetta er líka spurning um að standa með vinum sínum og standa með fólki sem stendur manni nærri og það höfum við gert. En það eru ekki vinir okkar sem ráðast á okkur og við erum utan NATO … „En þetta er bara einhver vangavelta.“
Nei, þetta er veruleiki sem margar þjóðir í Evrópu og víða um heiminn standa frammi fyrir, hvernig getum við varið hendur okkar gagnvart illvirkjum, hvort sem þeir heita Islamic-Jihad eða Rússland. Hvernig getur Island varið sig ef það er ekki á grundvelli 5. greinar Atlantshafssáttmálans sem við undirrituðum árið 1949?
„Því miður þá er heimurinn að þróast með þeim hætti að líkur á alvöru átökum eru vaxandi og því miður þá er það líka þannig að ógnin sem steðjar að samfélögum heims er ekki bara hernaðarógn.“
En þú ert ekki með svar við spurningunni. Þú ætlar ekki að svara henni.
„Ég er bara að segja að þetta er miklu flóknara mál en hvernig þú leggur hérna upp með.“
Nei, spurningin er hvernig eigum við að verja okkur og þú vilt ekki svara því.
„Nei, ég er að segja að varnir eru miklu flóknara viðfangsefni en það sem rótað er í kaldastríðshugmyndum um stríð og hernaðarbandalög.“
Segðu Úkraínumönnum það.
„Það er vegna þess að okkur getur stafað ógn í gegnum stafrænar ógnir, okkur getur staðið ógn af t.d. bylgjum hægri-öfgastefnu sem vill taka réttindi af fólki, af hinsegin fólki, af konum, af jaðarsettum hópum. Við erum að sjá þessar ógnir rísa mjög hátt og hvernig ætlum við að verja okkur fyrir þeim? Og hvernig ætlum við að verja konur fyrir þeirri ógn að vera lamdar heima hjá sér?“
Þú getur kannski spurt Islamic-Jihad-mennina sem þið eruð að flytja inn til landsins út í það.
„Það er líka raunveruleg ógn og löngu áður, og því miður er það enn þá þannig að það er sérstakt hús hérna í Reykjavík sem heitir Kvennaathvarfið sem er staður fyrir konur sem geta ekki verið öruggar heima hjá sér því þær eru beittar líkamlegu, fjárhagslegu og andlegu ofbeldi.“
Segist Svandís vera til í að ræða aðrar ógnir þegar Kvennaathvarfinu hefur verið lokað.
Viðtalið við Svandísi Svavarsdóttur má sjá og heyra í heild sinni í spilaranum hér að neðan: