Maðurinn sem féll í Tungufljót nálægt Geysi í gær hét Sigurður Kristófer McQuillan Óskarsson og var formaður björgunarsveitarinnar Kyndils í Mosfellsbæ. Hann var við æfingu í straumvatnsbjörgun í og við Tungufljót í gær, þegar slysið varð.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Slysavarnafélaginu Landsbjörg.
„Hugur minn og allra félaga í Slysavarnafélaginu Landsbjörg er með aðstandendum hans og félögum og okkar verkefni núna er fyrst og fremst að taka utan um þann hóp með allri þeirri sálrænu aðstoð sem við getum veitt, og þau vilja þiggja,“ segir Borghildur Fjóla Kristjánsdóttir, formaður Landsbjargar, í tilkynningunni.
Slysið var rétt fyrir klukkan fjögur í gærdag. Straumvatnsbjörgunarmenn náðu manninum upp úr ánni og voru strax hafnar endurlífgunartilraunir á honum, en þær báru ekki árangur.
Rannsókn slyssins er í höndum lögreglunnar á Suðurlandi og tekið er fram að Landsbjörg muni veita alla þá aðstoð við rannsóknina sem óskað verði eftir.