Boða umbreytingu í grunnskólanum

Sjálfstæðismenn vilja gera nýja og gagnlegri aðalnámskrá, sem miðist við …
Sjálfstæðismenn vilja gera nýja og gagnlegri aðalnámskrá, sem miðist við að börn öðlist mælanlega þekkingu. mbl.is/Kristinn Magnússon

Grundvöllur alls náms er lesskilningur og þar þarf að blása til stórsóknar í grunnskólum landsins. Þar bera stjórnvöld mikla ábyrgð og þau verða að bæta um betur og það strax. Þetta er kjarninn í fjölþættri stefnu Sjálfstæðisflokksins í menntamálum, sem frambjóðendurnir Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir og Jón Pétur Zimsen, kynntu á fundi í Grósku rétt í þessu.

Þau kynntu þar margháttaðar nauðsynlegar aðgerðir, sem flokkurinn vill beita sér fyrir þegar að loknum kosningum. Breyta þarf aðalnámskrá, gera átak í lestrarkennslu, taka upp samræmd próf að nýju og gera skólana að snjallsímalausum griðastað frá áreiti. Sömuleiðis þyrfti að endurskoða skóla án aðgreiningar og taka í notkun móttökuskóla fyrir börn, sem nýflutt eru til landsins.

21 stefnumál

Þau boðuðu meiri árangur í menntakerfinu með umbreytingu á ýmsum sviðum, sem kjörnuð voru í 21 stefnupunkti, en þó að mest áhersla sé þar lögð á málefni grunnskólans er einnig vikið að öðrum skólastigum, leikskólum, framhaldsskólum, iðnnámi og háskólum, og kennaramenntun.

Sjálfstæðismenn vilja gera nýja og gagnlegri aðalnámskrá, sem miðist við að börn öðlist mælanlega þekkingu. Hún verði jafnframt nægilega skýr að inntaki og orðalagi til þess að bæði nemendur og foreldrar, að ógleymdum kennurum og skólastjórnendum, skilji hana og markmiðin vel.

Jón Pétur Zimsen.
Jón Pétur Zimsen. mbl.is/Hanna

Samræmd próf og símalausir skólar

Þau vilja að samræmd próf verði á ný tekin upp í grunnskóla, en því ekki ótengt á að samræma námsmat í þeim, sem þá verði ekki lengur byggt á bókstöfum.

Mikil áhersla er lögð á bætta lestrarkennslu með það að markmiði að grunnskólanemar verði allir vel læsir og að þess sjáist stað í mælingum PISA.

Almenn vellíðan nemenda, sem styrkja á skólastarfið, er einnig á dagskrá. Þar kann helsta nýmælið að vera „símalausir skólar“, sem felst í því að allir nemendur leggi snjallsíma sína inn við upphaf skóladags og fái þá afhenta í lok dags. Með því á bæði að minnka utanaðkomandi áreiti af öllu tagi, auka samskipti og félagsfærni, en einnig að bæta einbeitingu nemenda í skólanum.

Því tengt leggja sjálfstæðismenn til að hreyfing verði hluti af upphafi hvers skóladags, en mikil og góð reynsla er af því í ýmsum nágrannalöndum. Það kemur blóðinu á hreyfingu í orðsins fyllstu merkingu, eykur félagsfærni, leikgleði og námsárangur.

Skóli án aðgreiningar endurskoðaður

Lagt er til að „skóli án aðgreiningar“ verði endurskilgreindur með það fyrir augum að allir þeir nemendur, sem þurfa aukinn eða sérhæfðan stuðning, fái hann. Ekki megi láta þá sem betur farnaðist í sérúrræðum gjalda fyrir hugmyndina um aðgreiningarlausan skóla. Auka verði valfrelsi foreldra til að velja slík sérúrræði fyrir börn sín að þörfum.

Því tengt er lagt til að settir verði á stofn sérstakir móttökuskólar eða -deildir fyrir börn, sem nýflutt eru til landsins. Markmiðið er að kenna þeim íslensku og þá undirstöðu í íslenskri menningu sem þarf til þess að þau komi nægilega vel undirbúin inn í almenna skóla eða deildir, svo þeim komi námið þar að gagni og án þess að raska kennslu annara.

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir og Jón Pétur Zimsen kynntu áherslurnar.
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir og Jón Pétur Zimsen kynntu áherslurnar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Fé fylgi nemanda

Þá er lagt til að geðheilbrigðisþjónusta í skólakerfinu verði efld, m.a. með tilliti til afleiðinga heimsfaraldursins, en mikilvægt sé að bregðast við auknu brottfalli í framhaldsskólum, sem sigldi í kjölfar hans.

Allt þetta er sagt miða að því að hver og einn fái notið sín og menntakerfið komi öllum til nokkurs þroska. Með það að augnamiði þurfi að auka nýsköpun, fjölbreytni og valfrelsi í skólastarfi, sem m.a. verði gert með því að fé fylgi nemanda, óháð rekstrarformi. Með verði starfsmöguleikum kennara einnig fjölgað, sem skipti miklu máli til þess að halda í sérmenntað fólk.

Í því samhengi vilja sjálfstæðismenn einnig að hugað verði að endurskoðun kennaramenntunar, en gagnrýnt hafi verið námið búi þá ekki nægilega vel undir starfið innan kennslustofunnar. Það þurfi að vera praktískara og eins þurfi í auknum mæli að bjóða upp á örnám til að kennarar geti jafnt og þétt bætt færni sína.

Tillögur um önnur skólastig

Einnig koma fram í stefnunni aðgerðir á leikskólastiginu. Þar er gert að markmiði að biðlistum eftir leikskólaplássi verði útrýmt í samstarfi við sveitarfélög, m.a. með því að ýta undir fjölbreyttara rekstrarumhverfi. Sömuleiðis að börn njóti íslensks málumhverfis í leikskólum, að þar sé hlúð að íslenskukunnáttu og -notkun frá upphafi.

Á framhaldsskólastigi er mælt fyrir um að rýmum fyrir iðnnema sé fjölgað í menntakerfinu, en einnig í STEAM-greinunum svonefndu (raunvísinda-, lista- og tæknigreinum) og heilbrigðisvísindum.

Þá er lagt til að háskólum í landinu verði fækkað með sameiningum, en þeir jafnframt efldir. Þá vekur athygli tillaga um að allt háskólanám hefjist með undirbúningsnámi í gervigreind.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka