Björgvin Jónsson, verjandi Jóns Inga Sveinssonar, gagnrýndi ákæru héraðssaksóknara í Sólheimajökulsmálinu harðlega, auk vinnubragða lögreglu við rannsókn málsins.
Ákæruvaldið fer fram á sex og hálfs árs fangelsi yfir Jóni Inga sem talinn er vera höfuðpaur glæpahóps sem stóð að innflutningi, vörslu, sölu og dreifingu fíkniefna.
Björgvin fer fram á að Jón Ingi verði sýknaður eða dæmdur til vægustu refsingar sem lög heimila fyrir ákveðna ákæruliði. Þá krefst hann þess að gæsluvarðhaldsvist komi til frádráttar dæmdri refsivist.
Björgvin fer fram á að hafnað verði upptökukröfu á fjármunum sem fundust á heimilum Jóns Inga. Um 310 þúsund krónur, 24 þúsund evrur, 100 tyrkneskar lírur og 20 pólsk slotí. Fyrir dómi sagði Jón Ingi að um tekjur af veiðitúrum sem hann fór með ferðamenn í væri að ræða.
Björgvin sagði að burtséð frá allri sönnun telji hann ekki gerlegt að sakfella Jón Inga eftir lýsingu í ákærunni um stórfellt fíkniefnalagabrot og skipulagða brotastarfsemi.
Níu sakborningar eru ákærðir í þeim kafla ákærunnar og sagðir hafa sammælst og verið meðvitaðir um tiltekna verkaskiptingu við geymslu, pökkun, sölu og dreifingu fíkniefna.
Verjandinn sagði að engin verknaðarlýsing væri til staðar, ekkert um áætlað magn fíkniefna, fjölda tilvika eða tegund fíkniefna.
Þá sé fjallað um nímenningana líkt og þeir séu eitt mengi.
Björgvin sagði ókleift fyrir verjendur að átta sig á verknaðarlýsingu og torvelt að gera sér grein fyrir hvað sakborningarnir eru sakaðir um.
Í málsgögnum er skýrsla lögreglu um hlutverk hvers sakbornings innan glæpahópsins. Velti Björgvin því upp af hverju sú hlutverkalýsing væri í ákærunni.
Þá sagði hann hvergi koma fram í ákæru um tengsl Jóns Inga við fíkniefnin sem voru haldlögð. Ekkert standi um að hann hafi átt þau, flutt þau inn, pakkað þeim né búið þau til.
Björgvin gagnrýndi vinnubrögð lögreglu við rannsókn málsins og lýsti þeim sem „forkastanlegum”. Hann sagði rannsakendur ekki hafa farið að lögum við öflun sönnunargagna.
Lögmaðurinn sagði lögreglu hafa lagt nafnalista fyrir vitni og þau einungis svarað eftir því sem fyrir þau var lagt. Því væri framburður þeirra ekki grundvöllur til sakfellingar Jóns Inga.
Björgvin sagði hljóðupptökur lögreglu í besta falli ólögmætar og í versta falli falsaðar, líkt og Jón Ingi telur.
Jón Ingi var hleraður meðan hann var í Dóminíska lýðveldinu. Svo virðist vera sem hlerunarbúnaði hafi verið komið fyrir í ferðatösku hans.
Björgvin sagði þetta ólögmætt og að enginn „heilvita maður“ héldi því fram að það megi hlera fólk alls staðar.
Karl Ingi og lögregla vilja meina að allar aðgerðir lögreglu hafi farið fram hérlendis og séu lögmætar.
Björgvin sagði hlutlægni ekki verið gætt í vinnubrögðum lögreglu í málinu.
Í lok máls síns minntist lögmaðurinn á að Jón Ingi hefur nánast hreina sakaskrá, fyrir utan einn skilorðsbundinn dóm í október 2023.