Karlmaðurinn sem féll í Tungufljót nálægt Geysi í gær var íslenskur. Hann var þar á ferð með tveimur öðrum karlmönnum.
Þeir höfðu áður verið staddir hjá Geysi, að sögn Sveins Kristjáns Rúnarssonar, yfirlögregluþjóns hjá lögreglunni á Suðurlandi.
Spurður segir hann það eiga eftir að koma almennilega í ljós hvað mennirnir voru að gera á svæðinu.
„Þetta er allt í vinnslu og allt á frumstigi,” segir Sveinn, spurður út í rannsóknina á tildrögum slyssins.
Maðurinn sem lést var á fertugsaldri.
„Straumvatnsbjörgunarmenn náðu manninum upp úr ánni og voru strax hafnar endurlífgunartilraunir á honum, sem báru ekki árangur,“ sagði í tilkynningu lögreglunnar í gær.