Samningaviðræður Háskóla Íslands og Parka-lausna, um gjaldtöku á bílastæðum við Háskóla Íslands, hafa verið stöðvaðar. Fyrirtækið Gulur bíll ehf. telur útboð tengd gjaldtökunni ekki standast lög og lagði fram kæru gegn Fjársýslu ríkisins, Háskóla Íslands og Parka-lausnum ehf. Gulur bíll var á meðal þriggja fyrirtækja sem gerðu tilboð í gjaldtökuna.
Ríkisútvarpið greindi fyrst frá.
Hefur nú kærunefnd útboðsmála birt ákvörðun sína.
Kemur þar fram að opnað var fyrir tilboð í gjaldtöku á bílastæðum við Háskóla Íslands 30. júlí í ár og bárust tilboð frá þremur bjóðendum.
Þar var Gulur bíll með lægsta tilboðið, eða tæpar 94 milljónir króna. Þar á eftir kom Parka-lausnir með um 97 milljónir króna.
Gulum bíl var hafnað með bréfi 15. ágúst þar sem m.a. var bent á að Gulur bíll hefði ekki verið með gilt starfsleyfi við opnun tilboða en því höfnuðu forsvarsmenn fyrirtækisins og sögðu fyrirtækið hafa fengið sín leyfi í ágúst vegna sumarleyfa og væru í samræmi við útboðsgögn.
Þá bentu þeir á að Parka-lausnir hefði ekki uppfyllt kröfur í útboðinu en því hefur fyrirtækið hafnað.
Kemur fram í ákvörðun kærunefndar að Parka-lausnir hafi ætlað sér að nýta sér þjónustu fyrirtækisins Securitas og segir að ef bjóðandi byggði á getu annars fyrirtækis skyldi það fyrirtæki skila inn sömu upplýsingum og bjóðandi.
Það virðist hins vegar vera svo að Parka-lausnir hafa ekki lagt fram önnur gögn sem vörðuðu Securitas.
Telur kærunefnd útboðsmála, eins og málið liggur fyrir á þessu stigi, að verulegar líkur hafi verið leiddar að broti gegn lögum um opinber innkaup.
Samningaviðræður mega því ekki halda áfram og frestast gjaldtaka við háskólann fram yfir áramót.