Telja neyðarvistun á lögreglustöð brjóta á börnum

Guðmundur Ingi Þóroddsson, formaður Afstöðu, félags fanga á Íslandi.
Guðmundur Ingi Þóroddsson, formaður Afstöðu, félags fanga á Íslandi. Ljósmynd/Aðsend

Afstaða, fé­lag fanga og annarra áhuga­manna um bætt fang­els­is­mál og betr­un, hef­ur komið á fram­færi við umboðsmann Alþing­is, al­var­legri ábend­ingu um meint brot barna­málaráðherra á samn­ingi Sam­einuðu þjóðanna um rétt­indi barna, vegna þeirr­ar ráðstöf­un­ar að börn verði neyðar­vistuð á lög­reglu­stöðinni í Hafnar­f­irði.

Kvört­un­in var send til OPCAT-eft­ir­lits umboðsmanns. Þetta kem­ur fram í til­kynn­ingu frá Af­stöðu.

Tíma­bundið úrræði vegna brun­ans

Ásmund­ur Ein­ar Daðason, mennta- og barna­málaráðherra, sagði í sam­tali við mbl.is í lok októ­ber að verið væri að út­búa rými á lög­reglu­stöðinni í Flata­hrauni í Hafnar­f­irði, svo hægt yrði nýta það tíma­bundið fyr­ir neyðar­vist­un barna.

Álma sem hýsti neyðar­vist­un barna Stuðlum gjör­eyðilagðist í bruna í októ­ber, og var í kjöl­farið gripið til þess ráðs að stúka af rými á meðferðardeild­inni fyr­ir neyðar­vist­un, ásamt því að fá aðstöðu á lög­reglu­stöðinni.

Afstaða ger­ir einnig at­huga­semd við að greint hafi verið frá ákvörðun­inni í fjöl­miðlum en ekki á vef Stjórn­ar­ráðsins.

Gæti haft al­var­leg­ar af­leiðing­ar

Guðmund­ur Ingi Þórodds­son, formaður Af­stöðu, skoraði á ráðherra, í aðsendri grein sem birt­ist á Vísi í síðustu viku, að end­ur­skoða þessa ákvörðun sína. Það gengi gegn grund­vall­ar­mann­rétt­ind­um barna að vista þau á lög­reglu­stöð. Slíkt gæti haft al­var­leg­ar af­leiðing­ar fyr­ir sál­ræna og fé­lags­lega vel­ferð þeirra.

Í til­kynn­ingu frá Af­stöðu seg­ir að eng­in viðbrögð hafi borist frá ráðherra og að ákvörðun um að vista börn á lög­reglu­stöðinni virðist standa. Því hafi fé­lagið ákveðið að koma ábend­ing­unni á fram­færi við OPCAT-eft­ir­lit umboðsmanns Alþing­is.

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert