Telja neyðarvistun á lögreglustöð brjóta á börnum

Guðmundur Ingi Þóroddsson, formaður Afstöðu, félags fanga á Íslandi.
Guðmundur Ingi Þóroddsson, formaður Afstöðu, félags fanga á Íslandi. Ljósmynd/Aðsend

Afstaða, fé­lag fanga og annarra áhuga­manna um bætt fang­els­is­mál og betr­un, hefur komið á framfæri við umboðsmann Alþingis, alvarlegri ábendingu um meint brot barnamálaráðherra á samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi barna, vegna þeirrar ráðstöfunar að börn verði neyðarvistuð á lögreglustöðinni í Hafnarfirði.

Kvörtunin var send til OPCAT-eftirlits umboðsmanns. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Afstöðu.

Tímabundið úrræði vegna brunans

Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, sagði í samtali við mbl.is í lok október að verið væri að útbúa rými á lögreglustöðinni í Flatahrauni í Hafnarfirði, svo hægt yrði nýta það tímabundið fyrir neyðarvistun barna.

Álma sem hýsti neyðarvistun barna Stuðlum gjöreyðilagðist í bruna í október, og var í kjölfarið gripið til þess ráðs að stúka af rými á meðferðardeildinni fyrir neyðarvistun, ásamt því að fá aðstöðu á lögreglustöðinni.

Afstaða gerir einnig athugasemd við að greint hafi verið frá ákvörðuninni í fjölmiðlum en ekki á vef Stjórnarráðsins.

Gæti haft alvarlegar afleiðingar

Guðmundur Ingi Þóroddsson, formaður Afstöðu, skoraði á ráðherra, í aðsendri grein sem birtist á Vísi í síðustu viku, að endurskoða þessa ákvörðun sína. Það gengi gegn grundvallarmannréttindum barna að vista þau á lögreglustöð. Slíkt gæti haft alvarlegar afleiðingar fyrir sálræna og félagslega velferð þeirra.

Í tilkynningu frá Afstöðu segir að engin viðbrögð hafi borist frá ráðherra og að ákvörðun um að vista börn á lögreglustöðinni virðist standa. Því hafi félagið ákveðið að koma ábendingunni á framfæri við OPCAT-eftirlit umboðsmanns Alþingis.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert