„Við höfum séð þetta gerast áður, einhvern tíma fyrir gos, þannig þetta hefur gerst áður,“ segir Steinunn Helgadóttir, náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, um smáskjálftahrinu sem varð milli Sýlingarfells og Stóra-Skógfells í nótt.
Milli klukkan tvö og þrjú í nótt varð smáskjálftahrina um tuttugu skjálfta á milli Sýlingarfells og Stóra-Skógfells. Um tíma var talið að kvikuhlaup væri að hefjast við Sundhnúkagíga og fundaði bakvakt almannavarna með Veðurstofunni í nótt.
Aðrar mælingar gáfu ekki vísbendingar um yfirvofandi kvikuhlaup og var ákveðið að ekki þyrfti að bregðast við hrinunni sem tók að róast eftir klukkan þrjú í nótt.
Allir voru skjálftarnir undir einum að stærð og á þriggja til sex kílómetra dýpi.
Skjálftarnir voru á svipuðum slóðum og áður hefur verið við upphaf kvikuhlaupa á Sundhnúkagígaröðinni, en engir mældust þar eftir klukkan fjögur í nótt.
„Við erum stöðugt að vakta öll þau gögn sem við höfum. Eins og í nótt voru það í raun bara skjálftagögnin sem sýndu þessa hrinu, en engin önnur gögn sem gáfu vísbendingar um að það væri eitthvað annað í gangi,“ segir Steinunn.
Ekki sáust merki um aflögun á GPS-mælum, ljósleiðara eða þrýstingsbreytingar í borholum HS Orku í Svartsengi og segir í tilkynningu frá Veðurstofunni að þegar kvika hefur hlaupið frá Svartsengi yfir í Sundhnúkagígaröðina hafi ofangreind mælitæki sýnt skýr merki.
Ein möguleg skýring hrinunnar er að um kvikuhreyfingu hafi verið að ræða sem stöðvaðist áður en til kvikuhlaups kom.
„Það er það sem við erum að styðjast við, að það hafi bara ekki verið nógu mikill kraftur í því.“
Benedikt Gunnar Ófeigsson, fagstjóri aflögunarmælinga á Veðurstofu Íslands, sagði í samtali við mbl.is fyrr í dag að ekki væri hægt að fullyrða að kvikugangur hafi valdið skjálftunum í nótt.