„Við vorum alveg á nippinu“

Benedikt Ófeigsson, jarðeðlisfræðingur á Veðurstofu Íslands.
Benedikt Ófeigsson, jarðeðlisfræðingur á Veðurstofu Íslands. Samsett mynd/mbl.is/Kristinn Magnússon

Benedikt Gunnar Ófeigsson, fagstjóri aflögunarmælinga á Veðurstofu Íslands, segir að litlu hafi mátt muna að viðbragðsaðilar væru kallaðir út í kjölfar snarprar skjálftavirkni í Sundhnúkagígum í nótt.

„Í þessu tilfelli datt skjálftavirknin niður og þá bíðum við til að sjá hvort hún taki sig upp aftur. Hún gerði það ekki og þá er það bara búið. Ef það hefði gerst þá hefðum við farið í viðbragð. Við vorum alveg á nippinu með hvað við ættum að gera,“ segir Benedikt.

Kvika að pota sér 

Hann segir ekki hægt að fullyrða um að kvikugangur hafi valdið skjálftunum í nótt en vissulega hafi það litið þannig út þegar horft er til mælinga.

„Við höfum séð þetta áður þegar kvikuhlaup fer af stað, þá byrjar það með nokkrum litlum skjálftum, en svo í kjölfarið sjáum við aflögun. Það gerðist hins vegar ekkert meira núna. Þetta getur þýtt ýmislegt. Þetta getur þýtt að kvika hafi verið að reyna að pota sér en svo ekkert komist lengra,“ segir Benedikt.

Sambærilegar aðstæður hafi komið upp í maí og ágúst.

Jafnvel jólahlaup 

Hann segir að miðað við núverandi landris ætti fyrri mörkum að vera náð í seinni hluta mánaðar.

„Eins og þetta hefur verið að þróast þá höfum við þurft að bíða aðeins lengur þegar þetta hefur náð fyrri mörkum. Þannig að við erum með það í huga að við gætum þurft að bíða svolítið lengur eftir þessu.“

Þannig að þetta gæti jafnvel orðið jólahlaup?

„Já, jafnvel, en þetta getur líka gerst fyrr þó að við teljum minni líkur á því,“ segir Benedikt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert