„Í svona litlum samfélögum, ef eitthvað gerist þá eru bara allir mættir og rétta fram hendi,“ segir Jónas Þór Viðarsson tónlistarmaður sem ætlar, ásamt kollega sínum Arnþóri Þórsteinssyni, að halda jólatónleika til styrktar Sigrúnu Björgu Aðalgeirsdóttur sem lenti, ásamt barnungum syni sínum, í umferðarslysi í Kelduhverfi í Öxarfirði í október.
Sigrún Björg og maðurinn hennar, Egill Bjarnason, voru nýbúin að festa kaup á hótelinu Skúlagarði í Kelduhverfi og voru að koma sér fyrir í sveitinni ásamt börnum sínum þremur þegar slysið varð.
Jónas, sem er úr sveitinni, segir að hugmyndin um styrktartónleika hafi svo komið frá einum félaga þeirra Arnþórs sem spili með þeim og í kjölfarið hafi þeir ákveðið að slá til og halda jólatónleika.
„Til þess að styrkja þau t.d. þegar kemur að endurhæfingu og svoleiðis. Þannig að þetta verði kannski minni brekka og menn þurfa kannski ekki að hugsa mikið um fjárhagslegu hliðina.“
Segir hann að hóað hafi verið í tónlistarfólk frá svæðinu og að allir hafi verið til í að leggja málefninu lið og þá hafi viðtökurnar verið mjög góðar síðan hann auglýsti tónleikana á Facebook.
„Ég setti þetta inn fyrir þremur dögum og síminn hefur varla stoppað.“
Tónleikarnir verða haldnir í Skúlagarði. Segir Jónas að mögulega hefði verið hægt að halda tónleikana á Húsavík til þess að fylla fleiri sæti en það hefði hins vegar verið heimilislegra að halda þá í sveitinni.
Þá mun einnig Kvenfélag Keldhverfinga leggja málstaðnum lið og sjá um léttar veitingar fyrir tónleikagesti.
Aðspurður segist Jónas hafa heyrt í Agli áður en ákveðið var að slá til styrktartónleikanna til að sjá hvort það væri ekki alveg örugglega í lagi.
„Hann var bara snortinn og afar þakklátur og skilaði kveðju frá henni,“ segir Jónas og bætir við að hann vonist til þess að Sigrún komist á tónleikana í desember.
„Ef ekki þá reynir maður bara að streyma þessu svo að hún fái að sjá þetta.“
Þá segir hann marga hafa haft samband til þess að bjóða fram aðstoð sína.
„Það eru allir tilbúnir að hjálpa. Eftir að ég setti þetta inn er ég búinn að fá alls konar skilaboð þar sem boðið er fram hendi og svoleiðis. Menn flykkjast á bak við þetta.“
Jónas og Arnþór hafa spilað saman í nokkurn tíma og segir Jónas að þeir hafi alltaf haldið jólatónleika í kirkjum og þá alltaf verið að styrkja ákveðin málefni.
Spiluðu þeir yfir sumarið fyrir pening til þess að kaupa græjur og svo yfir jólin til þess að styrkja.
„Við gerðum það reyndar ekki í fyrra þannig það var kominn tími til þess að gera eitthvað svona aftur.“
Tónleikarnir verða haldnir 18. desember og segir Jónas að treysta þurfi á veðurguðina svo að það geti verið fært á tónleikana frá Húsavík en hann lofar þó mikilli jólastemmningu á tónleikunum.
„Þeir sem verða ekki komnir í jólaskap labba út í jólaskapi.“