Beint: Guðlaugur Þór boðar til umhverfisþings

Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, boðar til umhverfisþings í Kaldalóni í Hörpu í dag klukkan 13-16. 

Þetta er þrettánda umhverfisþingið sem haldið er, en umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra boðar til þingsins samkvæmt ákvæðum þar að lútandi í lögum um náttúruvernd. Umfjöllunarefni þingsins að þessu sinni eru loftslagsmál, aðlögun að loftslagsbreytingum og náttúruvernd, að því er segir í tilkynningu. 

Hægt verður að fylgjast með þinginu í beinu streymi hér fyrir neðan. 

Þeir sem flytja erindi á þinginu eru:

Dr. Mikael Allan Mikaelsson. Hann hefur starfað sem sérfræðingur á sviði loftslagsstefnumótunar síðastliðin tvö ár hjá Stockholm Environment Institute (SEI) og er einn af helstu höfundum Evrópska loftslagsáhættumatsins sem gefið var út af Umhverfisstofnun Evrópu (European Environment Agency) fyrr á árinu. Mikael hefur unnið markvisst við greiningar á kerfisbundnum áhrifum loftslagsbreytinga (t.d. þvert á landamæri) og stefnumótun á sviði loftslagsaðlögunar til að sporna við þeim, og hefur hann t.a.m. starfað við greiningar og ráðgjöf um afleiðingar loftslagsbreytinga á aðfangakeðjur og viðskiptalíf fyrir Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins, UN Global Compact World Economic Forum. Áður en Mikael hóf störf hjá SEI, starfaði hann í tæpan áratug fyrir bresku utanríkis-, orku- og iðnaðarráðuneytin þar sem hann hafði umsjón með tækni, vísinda- og nýsköpunarsamstarfi tengdu evrópskum loftslagsaðgerðum og hlaut hann MBE-orðuna og nafnbótina af hendi bresku krúnunnar fyrir störf sín á sviði loftslagsmála.

Elín Björk Jónasdóttir, sérfræðingur í loftslagsteymi umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins. Íslensk stjórnvöld kynntu í sumar uppfærða aðgerðaáætlun í loftslagsmálum. Áætlunin samanstendur af 92 loftslagsaðgerðum og 58 loftslagstengdum verkefnum, sem er umfangsmikil aukning frá fyrri aðgerðaáætlun. Elín kom til starfa í umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytinu fyrir rétt rúmu ári, en hafði áður unnið nær allan sinn feril sem veðurfræðingur í ýmsum hlutverkum á Veðurstofu Íslands, þar sem hún lagði meðal annars áherslu á vísindamiðlun og fór einnig um tíma með veðurfregnir á RÚV.

Hildigunnur H. H. Thorsteinsson, forstjóri Veðurstofu Íslands. Veðurstofa Íslands vinnur nú að gerð Loftslagsatlass, sem var ein af forgangsaðgerðum stýrihóps sem umhverfis-, orku og loftslagsráðherra skipaði haustið 2022 til að vinna tillögur fyrir gerð Landsáætlunar um aðlögun að loftslagsbreytingum. Hildigunnur starfaði áður m.a. sem Chief Technical Officer hjá Innargi AS í Kaupmannahöfn, framkvæmdastýra rannsókna- og nýsköpunar hjá Orkuveitu Reykjavíkur og sem teymisstjóri á jarðvarmasviði í orkumálaráðuneyti Bandaríkjanna.

Steinar Kaldal, sérfræðingur í náttúruverndarteymi umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins. Þjóðgarðar og önnur friðlýst svæði eru aðdráttarafl í augum margra ferðamanna og mun Steinar fara yfir jákvæð samfélagsleg áhrif þessara svæða og taka dæmi innanlands og erlendis. Steinar stundaði nám í umhverfisstefnumótun og stjórnun við Lundarháskóla og hefur unnið að náttúruverndar- og friðlýsingarmálum í ráðuneytinu undanfarin ár. 

Kristinn Jónasson, bæjarstjóri Snæfellsnesbæjar. Kristinn var virkur í baráttunni fyrir stofnun þjóðgarðs á utanverðu Snæfellsnesi, m.a. með vinnu sinni í starfshópi um stofnun þjóðgarðsins. Snæfellsjökulsþjóðgarður var stofnaður árið 2001 til að vernda bæði sérstæða náttúru svæðisins og merkilegar sögulegar minjar. Kristinn hefur verið ötull við að vekja Snæfellsjökulsþjóðgarð til vegs og virðingar og bent á þau tækifæri sem tilkoma þjóðgarðsins hefur falið í sér. 

Höskuldur Elefsen, framkvæmdastjóri Dive.is sem býður meðal annars upp á köfunar- og snorklferðir í gjána Silfru á Þingvöllum. Höskuldur er viðskiptafræðingur að mennt, hefur starfað hjá fyrirtækinu síðan 2010 og þekkir því vel til uppbyggingar áfangastaðarins undanfarin ár.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert