Börnum mismunað: Kjaradeilan verði leyst án tafar

Bent er á að nemendur missi úr námi á meðan …
Bent er á að nemendur missi úr námi á meðan jafnaldrar þeirra sæki sína skóla. mbl.is/Hari

Umboðsmaður barna skorar á deiluaðila í kjaraviðræðum Kennarasambands Íslands við Samband íslenskra sveitarfélaga annars vegar og ríkið hins vegar að leggja allt kapp í að leysa deiluna án tafar.

Bent er á að verkfallið bitni á nemendum í fjórum leikskólum, þremur grunnskólum, einum framhaldsskola og einum tónlistarskóla. Þessir nemendur missi úr námi á meðan jafnaldrar þeirra sæki sína skóla.

Umboðsmaður beinir þeirri áskorun til deiluaðila að „þeir leggi allt kapp í að leysa þessa kjaradeilu án tafar“.

Salvör Nordal, umboðsmaður barna.
Salvör Nordal, umboðsmaður barna. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Þó verkfallsrétturinn sé óumdeildur verður ekki litið fram hjá því að börn eru skólaskyld og þau eiga stjórnarskrárvarinn rétt til menntunar og fræðslu. Að mati umboðsmanns barna er börnum í þeim skólum sem eru í verkfalli mismunað hvað varðar rétt þeirra til menntunar. Menntakerfið er ein af grunnstoðum samfélagsins og það gegnir mikilvægu hlutverki hvað varðar alhliða þroska barna,“ segir í yfirlýsingu

„Getur haft óafturkræfar afleiðingar“

„Það er verulega alvarlegt að afleiðingar þessa verkfalls verða þær að viðkomandi nemendur verði af rétti sínum til menntunar og standi þar af leiðandi jafnöldrum sínum ekki jafnfætis. Þá eykur fjarvera frá skóla m.a. líkur á því að börn þrói með sér skólaforðun sem skaðar bæði námsárangur og félagslega stöðu þeirra. Umboðsmaður barna hefur sérstakar áhyggjur af þeim börnum sem þegar eru í viðkvæmri stöðu. Það getur haft óafturkræfar afleiðingar fyrir börn að geta ekki sótt skóla og fyrir sum börn er skólinn griðastaður sem veitir öryggi sem þau njóta ekki annarsstaðar,“ segir þar einnig.

Fram kemur sömuleiðis að leggja þurfi mat á áhrifin sem verkfallið hefur á nemendur til að hægt verði að grípa til mótvægisaðgerða til að tryggja réttindi þeirra.

„Þá vill umboðsmaður barna árétta mikilvægi þess, varðandi verkfallsaðgerðir almennt, að farið sé eftir ákvæðum samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert