„Erum að fara vel með hverja krónu“

Dagur B. Eggertsson, Dóra Björt Guðjónsdóttir og Þórdís Lóa Þórhallsdóttir …
Dagur B. Eggertsson, Dóra Björt Guðjónsdóttir og Þórdís Lóa Þórhallsdóttir er áætlanirnar voru kynntar fyrr í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Dóra Björt Guðjónsdóttir, borgarfulltrúi Pírata, segir það gríðarlega ánægjulegt að borgin sjái fram á að skila hagnaði á næsta ári. Hún segir að ekki verði farið í niðurskurð og lögð verði áhersla á að þjónusta íbúa. Meðal annars er gert ráð fyrir 30 milljörðum á næstu árum í viðhald grunn- og leikskóla og 500 milljónum verði eytt í að tryggja öryggi gangandi vegfarenda á næsta ári. 

„Við erum að skila hagnaði í þessari fjárhagsáætlun á næsta ári, 1,7 milljarði í A-hluta og yfir 14 milljörðum í A- og B-hluta. Það er risastór frétt,“ segir Dóra og bendir á að á sama tíma geri ríkissjóður ráð fyrir tæplega 59 milljarða hallarekstri á næsta ári, 2025.

„Þetta er rosalega mikill munur. Að sama skapi þá er þetta að sýna að við erum að standast okkar eigin fjárhagsstefnu. Allir lykilmælikvarðar eru orðnir jákvæðir.“

Dóra segir mjög mikilvægt að minnast á að borgin sé að halda dampi í grænum áherslum sínum.

Hún nefnir í því samhengi undirritun uppfærðs samgöngusáttmála, Borgarlínuna og aukin þjónusta Strætó á næsta ári.

30 milljarðar í viðhald 

Dóra minnist á fjárfestingu í málefnum barna og barnafjölskyldna.

„Við erum að fjölga leikskólaplássum og við erum að leita að fjölbreyttari leiðum til að gera það,“ segir hún og nefnir átak í færanlegum stofum.

„Við erum að fjárfesta í viðhaldi grunn- og leikskóla gríðarlega mikið næstu ár. Við erum að tala um tölur upp á 30 milljarða næstu árin sem eru að fara í þessa hluti. Það er út af því að við viljum bjóða bæði starfsfólki og börnum upp á heilnæmt umhverfi.“

Öryggi gangandi í forgang 

Dóra segir nýjung vera í fjárfestingum í öryggismálum barna og gangandi vegfarenda í borginni með 500 milljónum strax á næsta ári.

„Við erum að fara í stefnumótun um gönguvæna borg sem að verður álíka plan og við höfum verið að fylgja eftir sem kallast hjólreiðaáætlun. Nú ætlum við að setja gangandi, aðgang fatlaðs fólks og öryggi barna í borginni í forgang. Þannig að börn geti betur gengið til skóla og frístundaiðkunar í öruggu umhverfi,“ segir hún og bætir við fjárfestingu í viðhaldi gangstétta og göngustíga.

Þá nefnir Dóra hraðalækkun ökutækja í borginni.

„Við ætlum að setja 200 milljónir í að lækka hraðann, fylgja eftir hámarkshraðaáætlun með raunlækkun á hraða. Það er rosalega góð leið til þess að bæta öryggi gangandi vegfaranda og barna og um leið minnka svifryksmengun og draga úr losun gróðurhúsalofttegunda,“ segir hún. 

„Þannig að málefni barna, barnafjölskyldna, græna sýnin okkar er eitthvað sem eru svona stóru málin.“

Leysa málin á skynsaman hátt 

Spurð hvort að niðurskurður verði í rekstri borgarinnar svarar Dóra neitandi.

„Við erum að tala um að við viljum leysa málin á skynsaman hátt. Við notum stafræna umbreytingu, við förum vel með hverja krónu, við höfum verið að passa upp á það að vera ekki að ráða fleiri og fleiri heldur að reyna að láta það haldast í horfinu.

En við erum samt að veita þá þjónustu sem við eigum að veita. Við erum að gera það mjög vel og viljum einmitt standa vörð um þjónustuna, en líta til þess hvar er hægt að breyta skipulagi til þess að fara betur með peninga. Það er það sem nútímavæðing þessarar þjónustu snýst um.“

Dóra segist að lokum stolt af því hversu vel meirihlutinn vinni saman og þannig náist árangur.

 

Dóra segist stolt af því hversu vel meirihlutinn vinni saman.
Dóra segist stolt af því hversu vel meirihlutinn vinni saman. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka