Frumvarp að fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar fyrir árið 2025 og fimm ára tímabilið til 2029 er lögð fram í borgarstjórn til fyrri umræðu í dag. Fram kemur í tilkynningu frá borginni að gert sé ráð fyrir 1,7 milljarða króna rekstrarafgangi á A-hluta borgarinnar 2025.
Þá segir í tilkynningu til Kauphallar Íslands, að útkomuspá sýni rekstrarafgang upp á ríflega hálfan milljarð króna á þessu ári og áætlanir geri ráð fyrir að rekstur borgarinnar batni enn frekar næstu fimm árin. Rekstur samstæðu (A- og B- hluta) skili 14,3 milljarða afgangi árið 2025 samkvæmt áætlunum.
„Fjárhagsáætlun A-hluta (hluti reksturs Reykjavíkurborgar sem fjármagnaður er með skatttekjum) sýnir mikinn viðsnúning í rekstri sem má rekja til árangurs af aðhaldi og aðgerðum til að mæta hallarekstri síðustu ára í samræmi við markmið og megináherslur fjármálastefnu Reykjavíkurborgar sem var sett fram við upphaf kjörtímabilsins.
Á næsta ári er gert ráð fyrir að rekstrarniðurstaða verði jákvæð um 1,7 milljarða króna. Gert er ráð fyrir að eignir A-hluta nemi 304 milljörðum króna í lok árs 2025 og aukist um 12,4 milljarða króna milli ára,“ segir í tilkynningunni.
Þá kemur fram, að útkomuspá geri ráð fyrir að rekstrarniðurstaðan ársins 2024 verði jákvæð um 531 milljón króna sem sé um 5,5 milljarða króna jákvæður viðsnúningur frá fyrra ári.
Fjárhagsáætlun ársins 2025 gerir ráð fyrir að rekstrarniðurstaða A- og B- hluta verði jákvæð um 14,3 milljarða króna og EBITDA (afkoma fyrir vaxtagreiðslur og vaxtatekjur, skattgreiðslur og afskriftir) verði 62,6 milljarðar króna, að því er borgin greinir frá.
Á árunum 2026-2029 er svo gert ráð fyrir batnandi afkomu A- og B- hluta og vaxandi EBITDA. Gert er ráð fyrir að í lok árs 2025 nemi eignir samtals 1.028 milljörðum króna og aukist um 54,2 milljarða á árinu. Þá er gert ráð fyrir að eiginfjárhlutfall nemi 45,7%.
Í tilkynningunni segir enn fremur, að Reykjavíkurborg hafi sett í forgang umfangsmikið viðhaldsátak á skólabyggingum, bæði leik- og grunnskóla. Áætlun næstu 5 til 7 árin hljóði upp á 30 til 35 milljarða króna bæði í viðgerðum á skólahúsnæði og uppbyggingu til að fjölga leikskólaplássum. Að auki sé lögð áhersla á viðhald og uppbyggingu íþróttamannvirkja sem nýtast börnum og ungmennum í borginni.
Þá segir að eitt af höfuðmarkmiðum Reykjavíkurborgar sé að hraða húsnæðisuppbyggingu. Fjármunum sé forgangsraðað til uppbyggingar gatna- og veituinnviða fyrir nýjar íbúðir en líka atvinnustarfsemi. Áhersla sé á að byggja á þeim svæðum sem styðji við virka ferðamáta og almenningssamgöngur en einnig ryðja nýtt land og styrkja úthverfin með aukinni byggð. Sett hafi verið markmið um að hafa tiltækar byggingarhæfar lóðir fyrir allt að 1.500 – 3.000 íbúðir á hverjum tíma. Í dag séu yfir 2.600 íbúðir í byggingu og byggingarhæfar lóðir fyrir 2.662 íbúðir til viðbótar.
Einar Þorsteinsson, borgarstjóri Reykjavíkur, segir í tilkynningunni að skýrt rekstraraðhald sé að skila árangri. Meginmarkmiðið sé að standa vörð um grunnþjónustuna en leita hagræðingartækifæra inn á við. Þá hafi öflugt aðhald meðal annars skilað sér í því að stöðugildi borgarinnar standi í stað milli ára þrátt fyrir að íbúum fjölgi og þjónusta við borgarbúa sé bætt.
„Þrátt fyrir að okkur hafi tekist að snúa miklum hallarekstri yfir í að skila núna afgangi þá erum við meðvituð um að verkefninu er ekki lokið. Við munum áfram leggja okkur fram um að leita leiða til að bæta reksturinn og þannig skapa svigrúm til þess að bæta enn frekar þjónustu við íbúa,” er einnig haft eftir Einari.