Fólksbíl var ekið á grjót sem var á veginum við Súðavíkurhlíð klukkan níu í morgun. Töluverðar skemmdir urðu á bílnum. Hjólastellið hægra megin að framan og aftan er til að mynda skemmt og stuðarinn laskaður.
Valur Brynjar Andersen, ökumaður bílsins, var nýlagður af stað frá Ísafirði til Keflavíkur í flug, þegar óhappið varð. Fjórir voru í bílnum en engan sakaði.
„Það var grjót á veginum. Ég var að mæta bíl og það var dimmt þannig að við sáum grjótið seint og bíllinn hoppaði á grjótinu,“ segir Valur Brynjar, spurður út í það sem gerðist.
Ekki þurfti að kalla til lögreglu vegna óhappsins en bíllinn var óökuhæfur og þurfti að fjarlægja hann með dráttarbíl. Valur var svo heppinn að fá í staðinn bíl lánaðan frá vinafólki sínu sem er á leiðinni í sömu utanlandsferð.
Hann kveðst áður hafa ekið fram á grjót sem þessi á veginum við Súðavíkurhlíð, rétt eins og margir aðrir ökumenn. Einnig hafa fallið þar snjóflóð og aurskriður. „Þetta er mjög hættulegt, enda þurfum við að fara að fá göngin,“ bætir Valur við og á þar við Súðavíkurgöng.