Selja efnivið gróðurhússins

„Við leigjum gróðurhús í Laugarási núna sem er aðeins minna …
„Við leigjum gróðurhús í Laugarási núna sem er aðeins minna en við gerum ráð fyrir að vera þar í alla vega tvö ár,“ segir Berglind Rán Ólafsdóttir, framkvæmdastjóri ORF Líftækni hf., en efniviður gróðurhúss fyrirtækisins í Grindavík er nú til sölu. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Húsið er dæmt ónýtt og við erum að vinna í því núna að farga því af því að verður ekki notað framar,“ segir Berglind Rán Ólafsdóttir forstýra líftæknifyrirtækisins ORF Líftækni hf., sem framleiðir sérvirk prótein með fræjum byggplantna, og á við gróðurhús fyrirtækisins í Grindavík sem hvort tveggja er ónýtt eftir náttúruhamfarirnar í og við bæinn síðasta árið og stendur auk þess ofan á kvikugangi.

Flogið yfir annað gosið við Sundhnúkagíga í janúar. Á myndinni …
Flogið yfir annað gosið við Sundhnúkagíga í janúar. Á myndinni sést hvernig hraunið er sitt hvoru megin við varnargarðinn og gróðurhús Orf Líftækni, sem er fremst á myndinni. mbl.is/Árni Sæberg

Segir Berglind húsið sem slíkt ekki boðið til sölu heldur efniviður þess, skyldi hann nýtast einhverjum. „Okkur langaði til að skoða hvort það væri einhver áhugi á að nýta efniviðinn úr húsinu, stál og svoleiðis, og Efnisveitan er að skoða það mál fyrir okkur,“ útskýrir hún og bætir því við að sala hefði verið metin álitlegri kostur en að setja efnivið hússins í endurvinnslu – ef svo færi að hann gæti nýst öðrum.

Hvað kemur í stað þessa húss og hvar?

„Við leigjum gróðurhús í Laugarási núna sem er aðeins minna en við gerum ráð fyrir að vera þar í alla vega tvö ár,“ svarar Berglind, en hús þetta er, eins og forveri þess í Grindavík var, ræktunarstaður byggplönturnar áðurnefndu. Próteinin sem fræ plantnanna eru notuð til að framleiða eru svo í framhaldinu seld fyrirtækjum sem framleiða svokallað vistkjöt – kjöt laust við umhverfisáhrif og gróðurhúsalofttegundalosun hefðbundinnar kjötframleiðslu.

Græna smiðja ORF Líftækni er nú flutt úr gróðurhúsi sínu …
Græna smiðja ORF Líftækni er nú flutt úr gróðurhúsi sínu við Grindavík vegna hamfaranna þar og leigir fyrirtækið annað gróðurhús tímabundið. Ljósmynd/Aðsend

Geiri í fæðingu

„Við erum að vinna með fyrirtækjum úti um allan heim, ekkert fyrirtæki á Íslandi er enn farið að framleiða vistkjöt, en ég veit að eitt fyrirtæki er að skoða það,“ segir forstýran og bætir því við að tíu fyrirtæki í Asíu, Bandaríkjunum og Evrópu noti nú vaxtarþætti ORF Líftækni.

„Þetta er náttúrulega geiri sem er að fæðast og markaðsleyfi að koma í Singapúr og Bandaríkjunum og verið er að bíða eftir markaðsleyfi í Asíu. Tilgangurinn með þessari þróun er að auka fjölbreytileika í því hvernig við uppfyllum próteinþörf mannkynsins,“ segir Berglind Rán Ólafsdóttir, forstýra ORF Líftækni, að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert