„Ég myndi segja að áskoranirnar í rekstri borgarinnar og sveitarfélaga almennt séu þetta ytra efnahagslega umhverfi sem við erum að glíma við öll, verðbólga og vextir,“ svarar Einar Þorsteinsson borgarstjóri spurður hvar áskoranirnar í rekstri borgarinnar liggja.
Einar segir í samtali við mbl.is að mikill viðsnúningur sé í rekstri borgarinnar, en á sama tíma verði þjónusta ekki skert. Viðhaldsátaki skólabygginga verði haldið áfram og ekkert hik sé í áformum um nýja þjóðarhöll. Þó á eftir að sjá hvort ný þjóðhagsspá Hagstofunnar hafi áhrif á áætlanirnar, en ný spá jók áætlaðan halla ríkissjóðs umtalsvert.
Meirihlutinn kynnti fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar fyrir 2025 og áætlun fyrir fimm ára tímabilið til 2029 í Borgartúni í hádeginu í dag.
Gert er ráð fyrir 1,7 milljarða króna rekstrarafgangi á A-hluta borgarinnar 2025. Útkomuspá sýnir rekstrarafgang upp á ríflega hálfan milljarð króna á þessu ári og áætlanir gera ráð fyrir að rekstur borgarinnar batni enn frekar næstu fimm árin.
Einar segir það mikla hagsmuni fyrir sveitarfélögin að það náist meiri stöðugleiki í efnahagsmálum.
„Hvað varðar rekstur borgarinnar þá erum við að sjá mikinn viðsnúning. Við erum að sjá núna í fyrsta skipti í svolítinn tíma afgang af rekstri aðalsjóðs,“ segir Einar og nefnir að upphaf kjörtímabilsins hafi verið dálítið bratt þegar kemur að fjármálunum.
Hann segir að vextir og verðbólguskot hafi haft mikil áhrif á rekstur borgarinnar, auk eftirstöðva heimsfaraldursins.
„Þannig að við vorum í tæplega 16 milljarða halla á árinu 2022. Náðum því niður um 10 milljarða í fyrra og erum að ná að skila afgangi á þessu ári samkvæmt útkomuspá.“
Einar segir að fjárhagsáætlunin sem lögð er fram fyrir næsta ár beri með sér að skila 1,7 milljarði í afgang og tæplega 15 milljörðum hjá samstæðunni.
„Þetta sýnir bara það að ábyrgur rekstur, vandaðar áætlanir og mikið aðhald inn á við skilar því að við getum náð þessum viðsnúningi án þess að skerða þjónustu og þvert á móti þá erum við að bæta þjónustu um leið. Við erum líka að fjárfesta á sama tíma,“ segir hann og nefnir áframhaldandi fjárfestingu í innviðum fyrir ný hverfi, íþróttamannvirkjum, grunnskólum og leikskólum.
Einar segir að ekkert hik sé í áætlunum um byggingu nýrrar þjóðarhallar, sem dregist hefur mikið á langinn.
Í kynningunni kom fram að lögð yrði áhersla á hagræðingu og sjálfbæran rekstur. Þýðir það niðurskurður?
„Við erum alltaf að leita hagræðingatækifæra, þ.e.a.s. hvaða aðgerða getum við gripið til til þess að bæði auka skilvirkni, en líka draga úr kostnaði. Við nálgumst þetta alltaf út frá því að tryggja það að íbúinn þurfi ekki að upplifa þjónustuskerðingu, og það er okkur að takast.“
Einar segir það skipta máli að vera með aðhald í ráðningum og fylgjast vel með þeim.
„Af því þetta er stór vinnustaður og fjölmennur og margar starfsstöðvar – að við séum með rétta mönnun á hverjum stað. Það er mjög fljótt að koma ef að við höldum góðri yfirsýn og þéttu aðhaldi þegar kemur að ráðningum.“
Spurður hvort að áætlunin sé gerð eftir nýrri þjóðhagsspá Hagstofunnar svarar Einar að unnið hafi verið að áætluninni um nokkurra mánaða skeið en nýja spáin birtist í gær.
Í kjölfar nýju þjóðhagsspárinnar kynnti fjármálaráðuneytið uppfærðar tölur fyrir fjárlagafrumvarp næsta árs og er þar nú gert ráð fyrir að hallinn verði 17 milljörðum meiri en áætlað var þegar frumvarpið var lagt fram í september.
Samkvæmt henni er er útlit fyrir að hagvöxtur á þessu ári verði aðeins 0,1%. Er það talsvert minni hagvöxtur en Hagstofan hafði spáð fyrr á árinu, en í júní spáði Hagstofan 0,9% hagvexti á árinu og í apríl var gert ráð fyrir 1,5% hagvexti.
Einar segir að áætlunin sem kynnt var í dag miði við eldri hagspána. „Við höfum miðað við eldri hagspá, en á milli umræðna þá munum við rýna í það hvort að nýja hagspá Hagstofunnar muni hafa áhrif til breytinga á frumvarpið, og tökum það inn þá 3. desember þegar við ræðum þetta í seinni umræðu.“