Foreldrar barna í leikskólum þar sem verkföll kennara standa nú yfir, flestir frá Drafnarsteini í Vesturbæ en einnig frá Leikskóla Seltjarnarness, mótmæltu verkfallsaðgerðum Kennarasambands Íslands í Ráðhúsi Reykjavíkur í dag. Þeir foreldrar sem mbl.is ræddi við finnst súrt að börnin þeirra séu þau einu sem séu í ótímabundnu verkfalli en verkfall er á fjórum leikskólum á landinu í heild og þar af einum í Reykjavík.
„Við viljum bara minna á okkur því okkur líður eins og við séum máttlaus gagnvart þessum verkfallsaðgerðum. Við sjáum ekki hvernig samtakamátturinn og samhugurinn á að haldast þegar við erum örfá sem lendum í þessu. Þetta er grafalvarleg staða fyrir marga foreldra þegar lífið fer á hvolf. Við erum misvel í stakk búin til að taka veikindadaga og sumarfrísdaga undir þetta. Nú eru læknar að fara í verkfall og það tekur pláss og því er varla búið að minnast á þetta verkall í fjölmiðlum,“ segir Salka Sól Eyfeld.
Hún segir að foreldrum líði eins og börnum þeirra sé mismunað.
„Vinkonur mínar vissu ekki einu sinni af þessu verkfalli þegar ég ræddi við þær í gær. Mamma mín er kennari og ég skil notkun á þessu verkfallsvopni. En við setjum spurningamerki við þessa taktík. Hún er að missa marks, sérstaklega þegar læknar eru líka að grípa til verkfallsaðgerða,“ segir Salka Sól.
Enn sem komið er ná verkfallsaðgerðir til níu skóla á landinu og þar af á fjórum leikskólum. Á Seltjarnarnesi, í Reykjavík, Reykjanesbæ og á Sauðárkróki. Þá eru tímabundnar verkfallsaðgerðir í þremur grunnskólum og tveimur skólum á framhaldsskólastigi. Í ráðhúsinu mátti sjá börnin að leik en einnig færðu þau sig fyrir framan skrifstofu borgarstjóra og tóku lagið.
Hafsteinn Gunnar Sigurðsson og Steinn Linnet segjast standa með kennurum en skilji ekki þessa verkfallsaðgerð.
„Hún bítur frekar lítið og mismunar þeim börnum sem sett eru í þessari stöðu. Ég hefði skilið ef þetta væru tímabundnar aðgerðir sem myndu kannski ferðast á milli leikskóla, frekar en að setja lítinn hóp í þessa stöðu. Það er verið að beita mismunun. En að sjálfsögðu þá á að sama skapi að borga kennurum mannsæmandi laun fyrir sína vinnu,“ segir Hafsteinn.
Steinn Linnet tekur undir með Hafsteini. „Það hefði kannski verið betra að allir leikskólar færu í verkfall eða að verkfallið myndi færast á milli. Við vitum að verkfallssjóðir eru misstórir og því erfitt að halda úti verkfalli til lengri tíma. En manni finnst líka mikilvægt að fólk viti að það er verið að neita kennurum um kjarabætur sem þeim var lofað árið 2016. Það er þegar búið að rýra lífeyrisréttindi en í staðinn var þeim lofað kjarabótum sem eru nær almennum markaði. Þannig að það er búið að taka af þeim réttindi án þess að neitt hafi komið á móti,“ segir Steinn.
Valný Aðalsteinsdóttir segir að tilgangur hennar og Ylfu dóttur hennar með komu í ráðhúsið sé sá að vekja athygli á því að það sé fólk sem verður fyrir þessum aðgerðum. „Okkur finnst það ekki boðlegt og ekki sanngjarnt gagnvart börnunum okkar,“ segir Valný.
Hún segir kröfur kennara ekkert með mótmælin að gera og að hún styðji kennara.
„En þessar aðgerðir eru engu að síður mjög erfiðar og bitna á mjög fáum heimilum. Það eru 6.500 börn í Reykjavík en um 100 sem lenda í þessu. Það er í raun bara ósanngjarnt. Við skiljum ekkert af hverju okkar leikskóli var valinn,“ segir Valný.
Einar Þorsteinsson borgarstjóri segist sýna afstöðu foreldra vel. Hann segir það geta haft mjög neikvæð áhrif á börn að komast ekki í skólann.
„Við höfum heyrt sögur af því að börn með sérþarfir megi mjög illa við þessu rútínuleysi. Svo þarf vinnandi fólk að komast í vinnuna og þarf að sitja heima. Það er alvarlegt mál, en að sjálfsögðu verðum við á sama tíma að virða rétt kennara til að beita sínu verkfallsvopni,“ segir Einar.
Eftir því sem þú kemst næst. Eru samningsaðilar nær því að ná saman?
„Ég sit ekki við þetta samningsborð og verð að treysta samninganefndum sveitarfélaganna og Kennarasambandsins til að leysa þetta með ríkissáttasemjara,“ segir Einar.