Flokkur fólksins mælist með einungis þremur prósentustigum minna fylgi en Sjálfstæðisflokkur og Miðflokkur. Þetta kemur fram í nýjustu könnun Prósents fyrir Morgunblaðið sem kynnt var í Spursmálum á föstudag.
Formaður flokksins og stofnandi hans, Inga Sæland, er nýjasti gestur Spursmála sem fara í loftið á mbl.is kl. 14.00 í dag.
Þar verður hún spurð út í helstu áherslumál flokks síns og hvort hún horfi fremur til hægri eða vinstri þegar koma mun að myndun ríkisstjórnar að afloknum kosningum 30. nóvember næstkomandi.
Þá verður hún einnig spurð út í hvað olli því að hún ákvað að skáka Jakobi Frímanni Magnússyni, núverandi frambjóðanda Framsóknarflokksins, og Tómasi A. Tómassyni út af listum flokksins en þeir voru oddvitar í hvoru kjördæminu fyrir sig í síðustu kosningum þegar flokkurinn tryggði sér sex þingsæti.
Auk Ingu mæta á svæðið þeir Víðir Reynisson, lögregluvarðstjóri, sem nú þreytir frumraun sína á stjórnmálasviðinu og Pawel Bartoszek, sem lengi hefur gegnt trúnaðarstörfum fyrir Viðreisn. Víðir er oddviti Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi en Pawel vermir annað sætið á lista Viðreisnar í Reykjavíkurkjördæmi norður þar sem oddviti er Hanna Katrín Friðriksson.
Fylgist með æsispennandi stjórnmálaumræðu á mbl.is klukkan 14.00.