Eru Samfylkingin og Viðreisn að daðra?

„Mér skilst að það sé bara mjög líklegt að Viðreisn …
„Mér skilst að það sé bara mjög líklegt að Viðreisn verði í næstu ríkisstjórn,“ sagði Jón Gnarr. „Það lítur allt út fyrir að Samfylkingin verði það líka, er það ekki?“ sagði Ása Berg­lind þá og leit á spyrjandi á Jón. Skjáskot/Rannsóknarsetur skapandi greina

Pólitískt daður um samstarf eftir kosningar átti sér stað milli frambjóðenda Samfylkingarinnar og Viðreisnar í pallborðsumræðum í morgun þar sem þeir virtust ýja að mögulegu ríkisstjórnarsamstarfi milli flokkanna tveggja.

Kosn­inga­fund­ur um skap­andi grein­ar fór fram í Grósku í morgun og voru frambjóðendur spurðir spjörunum úr um stefnur flokkanna í menningarmálum.

Málefni íslenska kvikmyndaiðnaðarins voru þar í sérstökum brennidepli.

„Sjáum til, sjáum til“

Meint daður átti sér stað þegar frambjóðendur voru spurðir hvort kæmi til greina að að stofna sjálfstætt menningarráðuneyti, og hvort nýsköpunarmál ættu einnig að heyra undir það ráðuneyti.

„Mér skilst að það sé bara mjög líklegt að Viðreisn verði í næstu ríkisstjórn og ég segi bara hreint og klárt já,“ svaraði Jón Gnarr sem situr á lista Viðreisnar.

„Það lítur allt út fyrir að Samfylkingin verði það líka, er það ekki?“ sagði Ása Berg­lind Hjálmarsdótt­ir úr Sam­fylk­ingunni þegar hún tók næst til máls og leit hún síðan spyrjandi á Jón, sem yppti öxlum.

„Sjáum til, sjáum til,“ sagði Jón og leit út í salinn. Svo hélt Ása áfram með svar sitt.

Sitt má hverjum sýnast um það hvort frambjóðendurnir hefðu þarna verið að ýja að mögulegu samstarfi. Kannski hefði orðalagið einfaldlega mátt vera heppilegra.

Samskiptin má sjá á tímanum 40.15 á upptöku af kosningafundinum.

Saman með 31 þingmann og vantar því aðeins einn

Hvorki Viðreisn né Samfylkingin hafa útilokað samstarf með hvor öðrum.

Í nýjustu könnun Prósents sem birt var í Morgunblaðinu á laugardag mælast flokkarnir tveir með samtals 31 þingmann – Viðreisn með 14 og Samfylkingin með 17.

Þá þyrfti ekki nema einn þingmann til viðbótar til að mynda stjórnarmeirihluta, ef gengið er út frá því að 13% atkvæða þurrkist út ýmist vegna auðra seðla og vegna þess að einhverjir flokkar nái ekki 5% þröskuldinum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka