„Fólk ætti að fara að öllu með gát“

Vindaspá á landinu klukkan 12 á morgun.
Vindaspá á landinu klukkan 12 á morgun. Kort/Veðurstofa Íslands

Það er búist við vonskuverðri víða um land á morgun og hefur Veðurstofan gefið út gular og appelsínugular viðvaranir.

Katrín Agla Tómasdóttir, veðurfræðingur á Veðurstofu Ísland, segir við mbl.is að lægð sé að nálgast landið í kvöld og í nótt og það gangi í hvassa sunnanátt í nótt og það bæti í vindinn í fyrramálið.

„Það verður víða sunnan hvassviðri eða stormur og eftir hádegi bætir enn í vindinn á Vestfjörðum og á Norðurlandi og þar taka við appelsínugular viðvaranir um hádegisbilið. Þá verður áttin suðvestlægari og það kólnar í veðri og einkum á Vestfjörðum og þar eru líkur á éljum. Það er appelsínugul viðvörun þar vegna hríðar,“ segir Katrín.

Dregur úr vindi seint annað kvöld

Katrín segir að vindstrengurinn sé nokkuð sterkur og það gætu orðið kviður yfir 40 m/s á Norðurlandi. Hún segir að það fari að draga úr vindi seint annað kvöld og þá fyrst sunnan og vestan til landinu en á föstudaginn verði orðið skaplegt veður á öllu landinu.

„Fólk ætti að fara öllu með gát og þeir sem eru búsettir á Norðurlandi ættu að tryggja lausamuni og forðast foktjón,“ segir hún.

Veðurvefur mbl.is

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert