Gular og appelsínugular viðvaranir á morgun

Gular og appelsínugular viðvaranir verða víða um land á morgun …
Gular og appelsínugular viðvaranir verða víða um land á morgun vegna hvassviðris. Kort/Veðurstofa Íslands

Gular og appelsínugular viðvaranir taka gildi á morgun, en búist er við snörpum vindhviðum víða um land og er varað við að fólk sé að ferðast. Er fólk á Norðurlandi sérstaklega beðið um að ganga frá lausamunum til að fyrirbyggja foktjón.

Strax um morguninn taka í gildi gular viðvaranir víðast hvar um landið að Suðurlandi undanskyldu. Er spáð sunnan 15-25 m/s með snörpum vindhviðum. Segir Veðurstofan að um varasamt ferðaveður sé að ræða og að ökutæki geti tekið á sig mikinn vind. Á vissum stöðum má búast við staðbundnum hviðum að 30 og 35 m/s og á miðhálendinu allt að 40 m/s.

Viðvaranirnar ná ekki til höfuðborgarsvæðisins.

Upp úr hádegi gengur mesta óveðrið yfir á suðvesturhluta landsins, en við taka appelsínugular viðvaranir um allt Norðurland  og Vestfirði vegna suðvestan storms.

Spáð er 20-28 m/s og geta hviður farið yfir 40 m/s. „Ekkert ferðaveður. Nauðsynlegt er að ganga frá lausamunum til að fyrirbyggja foktjón og er fólki bent á að sýna varkárni,“ segir í viðvörun Veðurstofunnar.

Um kvöldið á veðurofsinn að ganga yfir, síðast á Norðausturlandi, en allar viðvaranir eru dottnar úr gildi rétt fyrir miðnætti.

Veðurvefur mbl.is

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka