Kennarar boða til baráttufundar í dag

Magnús Þór Jónsson, formaður KÍ, flytur ávarp á fundinum.
Magnús Þór Jónsson, formaður KÍ, flytur ávarp á fundinum. mbl.is/Sigurður Bogi

Kennarasamband Íslands hefur boðað til baráttufundar í Háskólabíói í dag. Þar hyggjast kennarar sem standa nú í kjaradeilu við Samband íslenskra sveitarfélaga koma saman og þétta raðirnar.

Magnús Þór Jónsson, formaður KÍ, og tveir kennarar munu flytja ávörp á fundinum og lögð verður fyrir harðorð ályktun, líkt og það er orðað í auglýsingu.

Verkfallsaðgerðir hófust í níu skólum á þriðjudaginn í síðustu viku og er því hópur félagsmanna í verkfalli. Alls hafa aðgerðir verið boðaðar í þrettán skólum.

Ekki hefur verið boðað til nýs samningafundar á milli deiluaðila en kennarar krefjast þess að fá sambærileg laun og háskólamenntaðir sérfræðingar á almennum markaði.

Fundurinn hefst klukkan 16.30 í dag en húsið opnar klukkan 16.00. Ólafía Hrönn Jónsdóttir leikkona verður fundarstjóri og tónlistarmennirnir Valdimar og Örn Eldjárn munu sjá um tónlistarflutning.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert