Kennarar tilbúnir í langvinna baráttu

Magnús Þór Jónsson, formaður Kennarasambands Íslands, flutti ávarp á fundinum.
Magnús Þór Jónsson, formaður Kennarasambands Íslands, flutti ávarp á fundinum. mbl.is/Árni Sæberg

Kennarar eru tilbúnir í langvinna baráttu fyrir kröfum sínum, sem þeir segja ekki aðeins réttlátar og eðlilegar, heldur hvíli allur lýðræðislegur grunnur á því að stjórnvöld standi við gerða samninga. Aðildarfélög Kennarasambands Íslands hafa aldrei staðið jafn þétt saman og samstaðan um verkefnið er algjör.

Þetta er meðal þess sem kemur fram í ályktun Kennarasambands Íslands sem samþykkt var á baráttufundi kennara í Háskólabíói sem lauk fyrir skömmu.

„Kennarasambandi Íslands blöskrar afstaða viðsemjenda sinna í kjaradeilunni og tekur eindregið undir áhyggjur foreldra og nemenda af stöðu mála,“ segir jafnframt í ályktuninni, en verkföll hófust í níu skólum á þriðjudaginn í síðustu viku.

Um er að ræða ótímabundin verkföll í fjórum leikskólum og tímabundin verkföll í þremur grunnskólum, einum framhaldsskóla og einum tónlistarskóla. Verkfallsaðgerðir hafa verið samþykktar í samtals þrettán skólum.

Samstarf um útfærslu hefur enn ekki borið árangur

Í ályktuninni er vísað til samkomulags sem gert var árið 2016 á milli opinberra launagreiðenda og bandalaga stéttarfélaga um breytingar á skipan lífeyrismála sem ekki hafi verið staðið við.

„Ári síðar höfðu lífeyrisréttindi launþega á almennum og opinberum vinnumarkaði verið jöfnuð. Samkomulagið kveður einnig á um jöfnun launa milli markaða. Sú jöfnun átti að taka sex til tíu ár.

Samstarf um útfærslu jöfnunar launa hefur enn ekki borið árangur og því hafa aðildarfélög Kennarasambandsins sammælst um það markmið að kjarasamningar allra aðildarfélaga feli í sér skuldbindingu viðsemjenda um hvernig verður staðið við samkomulagið um jöfnun launa á næstu árum.“

Launamunur hafi alvarlegar afleiðingar fyrir skólakerfið

Ítrekuð er sú krafa sem áður hefur komið fram um að kennarar vilji sambærileg laun og aðrir háskólamenntaðir sérfræðingar á atvinnumarkaði.

„Ómálefnalegur launamunur milli markaða hefur haft alvarlegar afleiðingar á íslenskt skólakerfi. Það sárvantar kennara. Löngu er orðið tímabært að bregðast við stöðunni með því að jafna launin og fjárfesta þannig í skólakerfinu og framtíðinni um leið,“ segir þar einnig.

„Baráttufundur Kennarasambands Íslands, haldinn þann 6. nóvember 2024 í Háskólabíói, krefst þess að íslensk stjórnvöld standi við gerða samninga og tryggi að laun félagsfólks Kennarasambandsins standist samanburð við laun sérfræðinga á almennum markaði.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka