„Sigurinn aðeins meira afgerandi en ég bjóst við“

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir og Donald Trump.
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir og Donald Trump. Samsett mynd/mbl.is/Ólafur Árdal/AFP

„Ég óska Donald Trump til hamingju með kosningarnar og þetta virðist vera nokkuð afgerandi niðurstaða,“ segir Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra við mbl.is þegar leitað var eftir viðbrögðum hennar um sigur Trumps í bandarísku forsetakosningunum.

Þórdís segir að Bandaríkin hafi verið einn nánasti bandamaður Íslendinga til langs tíma og verði það áfram.

Bandaríkin okkar mikilvægasti útflutningsmarkaður

„Ég hlakka til áframhaldandi náins samstarfs á þeim sviðum sem við vinnum saman á eins og öryggis- og varnarmálum. Bandaríkin eru okkar mikilvægasti útflutningsmarkaður og sömuleiðis á alþjóðasviðinu en svo kemur í ljós hvort það verði einhverjar sérstakar breytingar þar. Við fylgjumst bara með því,“ segir Þórdís Kolbrún.

Kemur þessi sigur Trumps, sem virðist nokkuð afgerandi, þér á óvart?

„Nei, í raun kemur hann ekki mér ekkert sérstaklega á óvart. Undanfarnar vikur hefur mér þótt stefna í þetta en sigur hans er kannski aðeins meira afgerandi heldur en ég bjóst við,“ segir hún.

Trump hefur heitið því að vernda ekki aðildarríki NATO sem ekki eyða nægum fjármunum í varnarmál og þá hafa spurningar vaknað um hvort Bandaríkjamenn dragi úr fjárhagslegum stuðningi við Úkraínu í stríðinu við Rússland þegar Trump tekur við embætti forseta á nýjan leik.

Vonar að stuðningurinn við Úkraínu taki ekki róttækum breytingum

„Bandaríkin hafa verið öflug í skuldbindingum sínum við Úkraínu og við bindum vonir við að Bandaríkin beiti áhrifamætti sínum til að tryggja sjálfstæði og fullveldi Úkraínu á forsendum úkraínsku þjóðarinnar. Við vitum að varnar- og pólitískur stuðningur Bandaríkjanna skiptir sköpum fyrir stöðuna í Úkraínu,“ segir Þórdís Kolbrún.

Þórdís segist vona að stuðningurinn taki ekki róttækum breytingum sé horft til þess hvaða áhrif örlög Úkraínu geti haft á virðingu fyrir alþjóðalögum og friðsamlegri þróun í heiminum og þá sérstaklega í Evrópu og á svæði Atlantshafsbandalagsins þar sem Bandaríkin séu leiðandi.

„Í því samhengi má líta til þess að önnur alræðisríki fylgjast vel með því hvort vestræn ríki standi í lappirnar í stuðningi sínum við Úkraínu. Bandaríkin eru leiðandi í Atlantshafsbandalaginu og hafa verið alla tíð og það hefur verið kallað mjög skýrt eftir því að Evrópulönd geri meira. Langflest Evrópulönd hafa gert það og bætt verulega í varnarútgjöldin. Í þessu liggja augljósir sameiginlegir hagsmunir,“ segir Þórdís.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert