Yfir 500 manns hafa skrifað undir áskorun á Kennarasamband Íslands um að láta af verkfallsaðgerðum í þeim fjórum leikskólum landsins þar sem leikskólakennarar eru í ótímabundnum verkföllum.
Það er hópur foreldra barna í leikskólunum sem stendur að undirskriftarlistanum. Foreldrarnir halda því fram að um sé að ræða ólögmætar aðgerðir þar sem þær bitni á mjög fámennum hópi og börnum þeirra sé því mismunað.
„Við undirrituð skorum á Kennarasamband Íslands að láta af ólögmætum verkfallsaðgerðum við leikskólana Ársali, Drafnarstein, Holt og á Seltjarnarnesi sem mismuna börnum og brjóta á rétti þeirra til menntunar, fræðslu og velferðar. Við styðjum almennan verkfallsrétt kennara en getum ekki látið það viðgangast að honum sé beitt með ólögmætum hætti þannig að bitni á litlum hópi yngstu barnanna sem eru þannig látin bera megin þungann af verkfallinu,“ segir meðal annars í bréfinu.
Einnig er skorað á barnamálaráðherra og Samband íslenskra sveitarfélaga að sjá til þess að lögbundin réttindi barnanna séu tryggð.
Verkföll hófust í leikskólunum fjórum á þriðjudaginn í síðustu viku. Þá hófust einnig verkföll í þremur grunnskólum, einum framhaldsskóla og einum tónlistarskóla. Aðeins er um að ræða ótímabundin verkföll í leikskólum en verkfallsaðgerðir í hinum skólunum standa frá þremur og upp í sjö vikur. Verkfallsaðgerðir munu hefjast í fleiri skólum nú í desember, en alls hafa verið boðaðar aðgerðir í þrettán skólum.
Foreldrar leikskólabarnanna hafa látið í sér heyra síðustu daga og gagnrýnt fyrirkomulag verkfallsaðgerðanna. Í gær fjölmenntu börn og foreldrar af leikskólanum Drafnarsteini í Ráðhús Reykjavíkur þar sem þess var krafist að samið yrði við kennara og þeim greidd laun í samræmi við menntun og ábyrgð.
Þá hefur umboðsmaður barna skorað á deiluaðila að leysa deiluna án tafar en það er mat umboðsmanns að börnunum í þeim skólum sem eru í verkfalli sé mismunað hvað varðar rétt þeirra til menntunar.