Verðlaunað fyrir framúrskarandi starf

Verðlaunaþegar Íslensku menntaverðlaunanna 2024 á Bessastöðum ásamt Höllu Tómasdóttur forseta.
Verðlaunaþegar Íslensku menntaverðlaunanna 2024 á Bessastöðum ásamt Höllu Tómasdóttur forseta. Ljósmynd/Mummi Lú

Íslensku menntaverðlaunin fyrir árið 2024 voru veitt við hátíðlega athöfn á Bessastöðum þar sem Halla Tómasdóttir, forseti Íslands, veitti verðlaunin. Markmiðið með verðlaununum er að vekja athygli á framúrskarandi starfsemi, kennslu og þróunarstarfi og vera skólafólki hvatning í þeirra starfi.

Verðlaun eru veitt í fimm flokkum: fyrir framúrskarandi skóla- eða menntaumbótastarf; fyrir kennslu; þróunarverkefni; iðn- og verkmenntun; og sérstök hvatningarverðlaun.

Fjölmenning í fyrirrúmi

Í ár hlaut Fellaskóli í Breiðholti verðlaun fyrir þá skólastofnun sem þykir hafa skarað framúr. Fellaskóla er mjög fjölmenningarlegur skóli, þar sem meira en 30 tungumál eru töluð og skólinn þykir hafa sýnt skapandi kennsluhætti þar sem virðing fyrir félagslegum og menningarlegum margbreytileika er höfð að leiðarljósi.

Fellaskóli.
Fellaskóli.

Skólinn hefur verið að þróa starf sitt undir kjörorðinu Draumaskólinn Fellaskóli, og mikil áhersla er lögð á málþroska og læsi, leiðsagnarnám, tónlist og skapandi skólastarf. Í þessum flokki voru Árskóli á Sauðárkróki og Listasafn Íslands einnig tilnefnd.

Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins, Ásmundur Einar Daðason, mennta- og …
Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins, Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, Halla Tómasdóttir forseti og Sigurður Ingi Jóhannson, innviðaráðherra, undirrita nýtt samkomulag um menntaverðlaunin. Ljósmynd/Mummi Lú

Hugmyndarík útikennsla

Í flokki kennara sem hafa stutt að menntaúrbótum hlaut Hrafnhildur Sigurðardóttir, kennari við Sjálandsskóla í Garðabæ verðlaun fyrir hugmyndaríka útikennslu, valgreinar og einstaka leiðsögn við kennara um útivist og umhverfismennt. Hrafnhildur hefur tengt útivist inn í kennsluumhverfið og aukið áhuga nemenda á lífríki landsins með fjölbreyttri útikennslu. 

Sjálandsskóli í Garðabæ.
Sjálandsskóli í Garðabæ. Ljósmynd/Facebook

Í þessum flokki voru einnig tilnefndar Dóra Guðrún Wild, kennari við leikskólann Hlaðhamra í Mosfellsbæ; Guðrún Sigurðardóttir, kennari við leikskólann Gimli í Reykjanesbæ og Þóra Geirlaug Bjartmarsdóttir, kennari við Grunnskóla Borgarfjarðar.

Skapandi og gagnrýnin hugsun

Verðlaun fyrir framúrskarandi þróunarverkefni hlaut Helgafellsskóli í Mosfellsbæ fyrir verkefnið Snjallræði, sem hefur verið stýrt af Málfríði Bjarnadóttur frá upphafi. Snjallræði er nýsköpunarverkefni sem nær frá leikskólastigi upp á unglingastig. Verkefnið snýst um að þjálfa gagnrýna og skapandi hugsun í gegnum margvíslega verkefnavinnu sem reynir á félagsfærni og að finna lausnir á raunverulegum vandamálum. 

Helgafellsskóli í Mosfellsbæ.
Helgafellsskóli í Mosfellsbæ. mbl.is/​Hari

Í þessum flokki var þróunarverkefni í Háteigsskóla og kjörnámsbraut á sviðslistabraut Menntaskólans á Akureyri einnig tilnefnd.

Verklegar valgreinar

Verkmenntaskóli Austurlands á Neskaupstað hlaut verðlaun í flokki iðn- og verklegrar kennslu fyrir að efna til samstarfs við grunnskólana í Fjarðarbyggð og bjóða fram fjölbreytt úrval verklegra valgreina eins og t.d. myndbandsgerð, forritun, trésmíði, rafmagnsfræði, véltækni og málmsmíði. 

Verkmenntaskóli Austurlands á Neskaupstað.
Verkmenntaskóli Austurlands á Neskaupstað. Ljósmynd/Verkmenntaskóli Austurlands

Allir nemendur í 9. og 10. bekk grunnskóla í sveitarfélaginu geta sótt tvö verkleg námskeið í Verkmenntaskólanum og hefur mikil ánægja ríkt með verkefnið frá upphafi og árangurinn sést ekki síst í auknum áhuga á verkmenntun í Fjarðarbyggð.

Í þessum flokki var Rafmennt tilnefnd fyrir þróun einstaklingsmiðaðs náms i raf- og tæknigreinum og Þröstur Jóhannesson, kennari í Menntaskólanum á Ísafirði fyrir vandað verknám.

Notkun upplýsingatækni

Fimmtu verðlaunin sem veitt eru eru hvatningarverðlaun til einstaklinga, hópa eða samtaka sem hafa stuðlað að framúrskarandi menntaumbótum. Í ár fengu hvatningarverðlaunin þeir Bergmann Guðmundsson, verkefnisstjóri við Brekkuskóla og Giljaskóla á Akureyri og Hans Rúnar Snorrason, kennari við Hrafnagilsskóla í Eyjafjarðarsveit fyrir leiðbeiningar um notkun upplýsingatækni í kennslu.

Brekkuskóli á Akureyri.
Brekkuskóli á Akureyri. Ljósmynd/Facebook

Þeir hafa haldið úti vefsíðunni Snjallkennslan frá árinu 2018, en þar hafa þeir m.a. miðlað upplýsingum um notkun upplýsingatækni í kennslu, kynnt forrit og öpp sem nýtast bæði í kennslu og námi. Þá er á vefsíðunni verkefni fyrir nemendur sem þurfa meiri stuðning í námi og leiðbeiningar fyrir kennara um notkun gervigreindar og verkfæri til að auka málskilning og orðaforða nemenda.

Giljaskóli á Akureyri.
Giljaskóli á Akureyri.

Að íslensku menntaverðlaununum standa embætti forseta Íslands, mennta- og barnamálaráðuneytið, innviðaráðuneytið, Félag um menntarannsóknir, Grunnur – félag fræðslustjóra og stjórnenda skólaskrifstofa, Kennaradeild Háskólans á Akureyri, Kennarasamband Íslands, Listaháskóli Íslands, Menntamálastofnun, Menntavísindasvið Háskóla Íslands, Miðstöð skólaþróunar við Háskólann á Akureyri, Samband íslenskra sveitarfélaga, Samtök áhugafólks um skólaþróun, Skóla- og frístundasvið Reykjavíkurborgar og Samtök iðnaðarins.

Eftir athöfnina á Bessastöðum var undirrituðu þeir aðilar sem að verðlaununum standa nýtt samkomulag um verðlaunin.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert