Atkvæðagreiðsla utan kjörfundar vegna alþingiskosninga sem fram fara 30. nóvember hófst klukkan 10 í morgun. Klukkan hálf tvö höfðu 105 kosið í Reykjavík. Í heild hafa hins vegar 178 kosið þegar tekið er tillit til atkvæða á landinu í heild og erlendis.
Ásdís Halla Arnardóttir, kjörstjóri í Reykjavík, segir starfsfólk í Holtagörðum, þar sem atkvæðagreiðslan fer fram, í góðri æfingu enda stutt síðan nýr forseti var kjörinn. „Það eru bara fjórir mánuðir síðan þannig að við þekkjum þetta vel,“ segir Ásdís Halla.
Þó að Ásdís Halla hafi sinnt kjörstjórn utankjörfundaratkvæða þá segist hún sjálf alltaf kjósa á kjördag í sinni kjördeild. „Ég vil alltaf fara á kjörstað. Mér finnst hátíðlegt að fara á kjörstað í mína kjördeild,“ segir Ásdís Halla.
Hægt er að kjósa utankjörfundar allt þar til klukkan 5 á kjördag. Fólk getur kosið eins oft og það vill en síðasta atkvæðið gildir ávalt.
Rafræn kjörskrá er til staðar til að halda utan um þau atkvæði hafa verið greidd og hvort fólk sé áður búið að kjósa. Atkvæðin eru tímastillt og nýjasta atkvæðið gildir ávallt að sögn Evu B. Helgadóttur, formanns yfirkjörstjórnar í Reykjavík.