Björgunarsveitir á tánum

Slysavarnarfélagið Landsbjörg er á tánum vegna hvassviðrisins.
Slysavarnarfélagið Landsbjörg er á tánum vegna hvassviðrisins. mbl.is/Eggert

Jón Þór Víglundsson, upplýsingafulltrúi Landsbjargar, segir að enn sem komið er hafi fá verkefni ratað inn á borð björgunarsveita vegna hvassviðrisins sem nú geisar á landinu og þá einkum á Vestfjörðum og á Norðurlandi.

Hann segir að björgunarsveitin í Grundarfirði hafi verið kölluð út í morgun en þar var hætta á að hús með segli við höfnina fyki. 

„Það hefur ekki reynt á björgunarsveitir okkar að neinu marki það sem af er degi. Veðurspáin er ekki falleg og sérstaklega ekki fyrir Vestfirði. Við sáum ekki fyrir löngu síðan að í suðvestan áttinni á Vestjörðum þá varð hífandi rok á pollinum á Ísafirði þar sem tveir bátar rifnuðu upp og nú er spáð suðvestan stormi eða roki á þessu svæði,“ segir Jón Þór við mbl.is. 

Jón Þór segir að björgunarsveitir séu á tánum og allir séu meðvitaðir um stöðu mála. Hann biðlar til fólks að fara varlega, huga að lausamunum og að eigendur báta tryggi öryggi þeirra í höfnum. Hann segir ekki ólíklegt í ljósi veðurspár að einhver útköll berist þegar líða fer á daginn og fram eftir kvöldi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert