Félagsstofnun Stúdenta (FS) hefur fundað með Sjóvá og komist að þeirri niðurstöðu að bótaskylda sé viðurkennd í máli leikskólans Mánagarðs og barnanna er sýktust af E. coli. í október.
Þetta segir í tölvupósti frá Guðrúnu Björnsdóttur, framkvæmdastjóra FS, til foreldra barna á Mánagarði.
Kemur þar fram að öll börn á leikskólum FS séu tryggð hjá Sjóvá og er FS auk þess með ábyrgðartryggingu hjá tryggingafélaginu.
Er foreldrum vinsamlega bent á að tilkynna mál barna sinna beint á vefsíðu Sjóvá, bæði til þess að tryggja bótarétt barna þeirra ef langvinnar afleiðingar verða af sýkingunni og til þess að sækja bætur vegna tekjutaps eða kostnaðar sem kunni að hljótast vegna veikindanna.
Greint hefur verið frá að E. coli-smitið hafi verið rakið til blandaðs nautgripa- og kindahakks sem börnin fengu í matinn á leikskólanum þann 17. október síðastliðinn. Var það niðurstaða rannsóknar að meðhöndlun og eldun þess hefði ekki verið með fullnægjandi hætti.
Alls smituðust yfir 40 börn og lét matráður Mánagarðs af störfum að eigin ósk eftir að sýkingin kom upp.