Ekkert ferðaveður verður á Vestfjörðum og á Norðurlandi eftir hádegi í dag en spáð er vonskuveðri vegna hvassviðris og hríðaveðurs á Vestfjörðum. Appelsínugular og gular viðvaranir taka gildi víða um land í dag vegna veðursins.
Katrín Agla Tómasdóttir, veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands, segir við mbl.is að spáin sé að ganga eftir. Það sé kominn sunnan hvassviðri eða stormur vestanlands og síðan muni vindur snúast til suðvestanáttar um hádegisbilið og þá megi búast við stormi eða roki á Vestfjörðum og á Norðurlandi.
„Það kólnar í veðri með suðvestanáttinni. Það er spáð hríðarveðri á Vestfjörðum og það er ekki útlit fyrir neitt ferðaveður á Vestfjörðum og á Norðurlandi eftir hádegi. Við brýnum fyrir fólki að fara varlega og hvetjum alla til að ganga frá lausamunum,“ segir Katrín Agla.
Katrín segir að veðrið gangi ekki niður fyrr en seint í kvöld eða jafnvel um miðnættið en appelsínugular viðvarirnar eiga að renna út á Vestfjörðum seint í kvöld og á Norðurlandi um miðnætti. Hún segir að á morgun verði komið skaplegt veður um allt land.
Katrín bendir á að hætta sé á skriðuföllum og grjóthruni í bröttum hlíðum.
„Það er búið að vera úrkomusamt síðustu daga á Suður- og Vesturlandi og á sunnanverðum Vestfjörðum þannig að jarðvegurinn er orðinn vatnsmettaður. Jarðvegurinn er því óstöðugur og það gætu orðið einhverjar hreyfingar á honum,“ segir Katrín.
Á vef Vegagerðarinnar, umferdin.is, kemur fram að búast megi við mögulegum lokunum á Vestfjörðum um miðjan dag. Óvissustig er á Steingrímsfjarðarheiði, í Ísafjarðardjúpi, á Súðavíkurhlíð og á Gemlufallsheiði vegna suðvestan storms eftir hádegi og gæti því komið til lokana með stuttum fyrirvara. Þar segir einnig að ófært sé á milli Stykkishólms og Grundarfjarðar vegna mikilla vindhviða.