Fjúkandi trampólín, svalir og þakplötur

Þakplata hefur fokið út á götu á Ísafirði.
Þakplata hefur fokið út á götu á Ísafirði. mbl.is/Halldór Sveinbjörns

„Við getum notað þennan hvell sem síðustu áminningu um að ganga nú almennilega frá öllum lausamunum fyrir veturinn.“

Þetta segir Jón Þór Víglundsson, upplýsingafulltrúi Landsbjargar, spurður um umfang verkefna björgunarsveita landsins í hvassviðrinu

Einhver sofið á verðinum

Hann segir daginn hafa verið nokkuð rólegan miðað við aðstæður en þó hafi verið eitthvað um foktjón í morgun og nú aftur þegar byrjað er að kvölda.

„Það var smá hvellur austur á héraði og björgunarsveit var kölluð út þar sem trampólín var að fjúka í morgun,“ segir Jón Þór og ítrekar mikilvægi þess að ganga frá fyrir veturinn því þetta verði síður en svo síðasta hvassveður vetrarins.

„Það að trampólín sé að fjúka þegar komið er fram í nóvember er merki um að einhver hafi sofið á verðinum.“

Svalir að liðast í sundur

Björgunarsveit hafi einnig verið kölluð út á Grundarfirði þar sem saltskemma með dúk á ytra byrði var farin að rifna.

Núna um sexleytið hafi sveitir einnig farið í útköll í Bolungarvík og á Ísafirði þar sem rokið var farið að segja til sín og þakplötur og girðingar voru farnar að fjúka og svalir að liðast í sundur.

Meðfylgjandi myndir eru frá fréttaritara Morgunblaðsins og sýna þakplötu sem hefur fokið út á götu á Ísafirði.

Í dagbók lögreglu kemur einnig fram að Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hafi sinnt útköllum tengdum óveðrinu. Trampólín hafi fokið og fests í tré og þakplötur fokið af húsi í hverfi 111.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert