Athena Ragna Júlíusdóttir er áberandi í auglýsingherferð frá Sif Jakobs skartgripahönnuði í aðdraganda jóla, en á bak við myndirnar er skemmtileg saga sem nær aftur til loka 20. aldar. „Ég vann sem fyrirsæta í um áratug frá tólf ára aldri og tók nýlega upp þráðinn á ný,“ segir hún. „Það er mjög gaman að sjá andlitið mitt úti um allt. Ég hef líka setið fyrir með strákunum mínum í barnalínu Najell, sem er verið að auglýsa hérna í Svíþjóð.“
Undanfarin tæp 15 ár hefur Athena búið í Danmörku og Svíþjóð. Hún er gift og tveggja barna móðir í Malmö og vinnur sem verkefnastjóri við Háskólasjúkrahúsið á Skáni, sem er bæði í Lundi og Malmö en sinnir fyrirsætustörfum í hjáverkum. Sem barn og unglingur á Akranesi samdi hún mörg ljóð og fékk meðal annars birt ljóð eftir sig í Morgunblaðinu og víðar auk þess sem ljóð eftir hana voru valin í Ljóðabók barnanna.
Hún var efnileg sundkona, keppti heima og víða erlendis með unglingalandsliðunum og samkvæmt metaskrá sunddeildar ÍA frá því í sumar á hún enn félagsmet í 4x100 m skriðsundi, 4.09,06 frá 2005, en með henni syntu Kolbrún Ýr Kristjánsdóttir, Daisy Heimisdóttir og Elísa Guðrún Elísdóttir.
Lesa má meira um málið í Morgunblaðinu í dag.