„Þetta er náttúrulega gríðarlegur heiður að fá að stökkva með þessum hóp. Þetta er eins og að fá tækifæri til að stunda hópfimleika með Simon Biles og öllu bandaríska landsliðinu, Nadiu Comăneci og tíu öðrum heimsmeisturum þeirra á milli og svo nokkrum áhugamönnum eins og mér.“
Þetta segir Jón Ingi Þorvaldsson við mbl.is, tölvunarfræðingur, ofurhugi og nú nýbakaður heimsmethafi í mynsturstökki í fallhlíf, eftir að hafa klukkan 16:20 í gær að staðartíma í Arizona-ríki í Bandaríkjunum, 23:20 á Íslandi, sett heimsmet í tveggja mynstra flokki þegar hann stökk úr 18.000 feta hæð með 150 öðrum stökkvurum sem mynduðu tvö ólík mynstur, eða stjörnur, á þeim örfáu sekúndum sem hópurinn hafði úr að spila yfir Skydive Arizona-svæðinu milli Phoenix og Tucson.
Sló hópur Jóns þar með fyrra met frá árinu 2019 sem var 130 stökkvarar og telur Jón Ingi ólíklegt að met hóps hans verði slegið í bráð. Úrslitin urðu ljós um klukkan 19 í gær, 02 í nótt á Íslandi, þegar oddadómari kvaddi sér hljóðs eftir að dómarar höfðu legið yfir myndum og myndskeiðum og komist að niðurstöðu.
„Þetta var í þriðja og síðasta stökkinu í gær, tíunda stökkinu í vikunni og áttunda stökkinu sem allur hópurinn tók saman,“ segir Jón Ingi, en eins og fram kom í viðtali við hann hér á mbl.is á sunnudaginn hafði hópurinn sex daga tímaramma til að reyna við met og var sunnudagurinn upphafsdagur. Algengt er að sögn Jóns Inga að ný met líti dagsins ljós síðasta daginn, jafnvel í allra síðasta stökkinu, svo hér lét 151 stökkvari hendur greinilega standa fram úr ermum eftir margra mánaða undirbúning.
Er þetta í annað skipti sem Íslendingur á þátt í heimsmeti í hópstökki í fallhlíf en Ditta Valsdóttir varð fyrst Íslendinga til þess í 400 stökkvara mynstri sem framkvæmt var upp úr aldamótum yfir Taílandi og í samstarfi við taílenska herinn sem lagði hópnum til fimm Hercules C130-herflutningavélar til að setja met sem Jón Ingi sagði við mbl.is á sunnudaginn að yrði líkast til aldrei slegið.
„Þetta er nýtt met í þeim flokki þar sem gerð eru tvö mynstur í sama stökki,“ útskýrir Jón Ingi, „við höfum um það bil 90 sekúndur til að stökkva út úr sjö flugvélum og koma saman í loftinu í fyrra mynstrið sem er í um 10.000 feta hæð. Þá höfum við um það bil fimmtán sekúndur til að mynda síðara mynstrið,“ lýsir hann.
Hvort mynstur um sig vari aðeins í um sekúndu, „nánast um leið og síðasta gripið var tekið í fyrra mynstrinu var merki gefið um að sleppa og fara yfir í síðara mynstrið. Í 6.500 fetum verða svo allir að sleppa og koma sér eins langt frá hver öðrum og hægt er áður en fallhlífarnar eru opnaðar. Fyrir opnun nálgast stökkvararnir yfirborð jarðar á 200 kílómetra hraða miðað við klukkustund og beita svo sérstakri tækni sem kallast „tracking“ til að færa sig í sundur og þá getur hver stökkvari náð allt að 150 kílómetra hraða í láréttu plani. Þetta er stórar tölur og að mörgu að hyggja.
Kemur ekkert fát á hópinn þegar fimmtán sekúndur eru til stefnu til að sleppa gripinu og fara í næsta mynstur?
„Þetta þarf að vera mjög yfirvegað, sé þetta gert í of miklum flýti myndar það bylgju gegnum allt mynstrið sem tefur ferlið,“ svarar Jón Ingi, „auðvitað verður smá asi á manni í lokin en þetta gekk.“
Hópurinn sem setti heimsmetið í gær er samlagshópur tveggja stórra hópa, Arizona Airspeed, sem á meðal annars lið sem eru nýbakaðir heimsmeistarar í fjögurra og átta manna liðakeppni, og hins vegar evrópska hópsins PowerGames.
Skydive Arizona er eitt stærsta stökksvæði heims og aðbúnaður allur hinn besti sem að miklu leyti gengur raunar út á að nóg pláss sé fyrir hendi, hvort tveggja til að taka á loft með stóra hópa í mörgum flugvélum og ekki síður fyrir stökkvarana að svífa þöndum fallhlífum til móður jarðar og komast í snertingu við hana á ný.
Hvenær vitið þið að þið eruð með heppnað stökk?
„Enginn veit að met hafi verið sett fyrr en dómararnir eru búnir að liggja yfir þessu og skoða hvert einasta grip á upptökum. Klukkan fimm í gær var hópurinn boðaður á upplýsingafund þar sem biðin var löng. Það var ekki fyrr en rétt fyrir sjö að dómnefndin kom á staðinn, sýndi okkur myndskeið af stökkinu og tilkynnti svo að heimsmet hefði verið sett og þá náttúrulega sprakk allur mannskapurinn af gleði,“ svarar stökkvarinn, sáttur eftir margra mánaða undirbúning stökksins í gær. „Þetta stökk tók í raun heilt ár í skipulagningu,“ segir hann.
Af 151 stökkvara í hópi Jóns Inga í gær kveður hann aðspurður 34 konur hafa tekið þátt í þessu nýja heimsmeti og – einnig aðspurður – telur heimsmethafinn nýbakaði, Jón Ingi Þorvaldsson, að minnst tvö til fjögur ár líði þar til annar hópur reyni að skáka þeim sem í gær settu heimsmet í tveggja mynstra stökki yfir sólbökuðum sléttum Arizona-ríkis.
Fyrir áhugasama:
Instagram-síða hans er @jonthorvaldsson